rafidnadarsambandidNú styttist í síðasta mánuð ársins og í desembermánuði skal greiða út desemberuppbót. Uppbótin á almennum vinnumarkaði er að upphæð 86.000 kr. og er óheimilt að greiða lægri upphæð í desemberuppbót. Í síðustu kjarasamningum var heimild til að greiða uppbótina út jafnharðan felld brott og því eiga allir okkar félagsmenn að njóta þessarar greiðslu. Desemberuppbótina skal ekki greiða seinna út en þann 15. desember en lang algengast er að uppbótin sé greidd út samhliða greiðslu launa fyrir nóvembermánuð.

Full uppbót greiðist fyrir fullt ársstarf sem teljast 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Miðast upphæðin við starfshlutfall og starfstíma og þeir starfsmenn sem hafa starfað í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í vinnu fyrstu vikuna í desember eiga rétt á uppbótinni miðað við starfshlutfall og starfstíma, sjá nánar í kjarasamningum.

Dæmi:

Starfsmaður vinnur fullt starf og hefur unnið 45 vikur eða meira á starfsárinu fær greiddar 86.000 kr.

Starfsmaður sem hefur unnið 12 vikur á síðustu 12 mánuðum fær greiddar 22.933 kr (12/45 * 86000 kr = 22.933 kr).

Athugið að upphæðir í sérkjarasamningum geta verið þær sömu eða hærri og því nauðsynlegt að kynna sér efni sérkjarasamninga þegar það á við.

Birt með fyrirvara um innsláttarvillur.

rafidnadarsambandid2Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands sem haldin var dagana 16. og 17. nóvember 2017 skorar á alla þingflokka sem kjörnir voru nýverið til að starfa á Alþingi að beita sér fyrir því að efla iðn- og tækninám á komandi árum. Það hefur yfirleitt ekki skort vilja til þess að tala um nauðsyn þess að fjölga þurfi nemendum í iðn- og tækninámi. Þegar á hólminn er komið hefur hingað til skort allverulega á vilja til framkvæmda.

Ráðstefnan hvetur því þá flokka sem nú standa að mótun nýs stjórnarsáttmála að setja eflingu iðngreina ofarlega á framkvæmdalistann. En meðal annars þarf að: 

  • Tryggja bætt aðgengi að náminu. 
  • Auka þarf fjármagn til skólanna sem eyrnamerkt er kennslu iðnnáms enda er námið dýrara í rekstri en hefðbundið bóknám. Iðn- og tækninám skilar almennt meiri framlegð en annað nám.
  • Tryggja þarf sjálfstæði við skipulag námsins að því leyti að lengd náms þarf ekki að fylgja öðru námi heldur þarf að taka mið af því efni sem nauðsynlegt er að kenna. 
  • Koma þarf í veg fyrir að fjöldatakmarkanir í kennslu taki mið af hefðbundnu bóknámi því kennsla í verklegu námi krefst þess oft á tíðum að fjöldi nemenda í hverjum hópi sé minni.

Það dylst engum að á komandi árum mun samkeppnishæfni Íslands takmarkast af því hversu öflugan grunn vinnandi iðnaðarmanna við höfum til þess að vinna þau verkefni sem framundan eru. Fjórða iðnbyltingin krefst fleiri starfsmanna með rafiðnaðarmenntun. Við megum ekki sofa á verðinum og nú er kominn tími til aðgerða af hálfu stjórnvalda í þessum málaflokki! 

 

rafidnadarsambandid2Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands sem haldin var dagana 16. og 17. nóvember 2017 ítrekar ályktun sína frá síðasta ári þar sem þess var krafist að kjararáð breyti fyrri úrskurðum sínum þar sem laun alþingismanna hækkuðu langt umfram aðra í samfélaginu. Við erum enn á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að gera róttækar breytingar á kjararáði þar sem nauðsynlegt er að tengja kjararáðið við raunveruleikann. 

Í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem í gangi eru virðist vera áhugi á því að endurvekja viðræður um rammasamkomulag, svokallað SALEK, en öllum ætti að vera augljóst að launafólk er ekki reiðubúið til þess að fylgja afmarkaðri línu launahækkana á meðan alþingismenn og aðrir hópar sem heyra undir kjararáð njóta launahækkana og lífeyrisréttinda sem eru oft langt umfram það sem almennt gerist.

Nú styttist í að kjarasamningar losni á almennum vinnumarkaði og þá er eðlilegt að almenningur spyrji sig hvert skuli sækja fordæmi launahækkana. Það er augljóst að aðhafist Alþingi ekkert í málinu þá er Alþingi að staðfesta að svigrúm til launahækkana sé í samræmi við úrskurði kjararáðs. 

Ljóst er að alþingismenn og ráðherrar komandi ríkisstjórnar munu ekki geta borið fyrir sig varnaðarorð um óstöðugleika þegar kemur að því að verkalýðsfélög leggi fram kröfugerðir í komandi viðræðum að þessu óbreyttu.

 

rafidnadarsambandid2

Á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands var ákveðið að hvetja lífeyrissjóði á samningssviði ASÍ og SA að draga til baka tímabundið valkvæðið um að ráðstafa auknu framlagi í tilgreinda séreign. RSÍ er á móti því að stíga þetta skref til baka og kom þeim skilaboðum áleiðis á fundi miðstjórnar ASÍ en þrátt fyrir varnarorð á fundinum ákvað miðstjórn að senda bréf á lífeyrissjóðina. Miðstjórn RSÍ fundaði á föstudag og sendir frá sér eftirfarandi ályktun um málið:

Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands harmar þá ákvörðun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að hvetja lífeyrissjóði sem starfa á samningssviði ASÍ og SA að draga tímabundið til baka valkvæði um greiðslur sjóðfélaga í tilgreinda séreign. Félagsmenn hafa samþykkt þann kjarasamning sem tilgreinda séreignin er byggð á og því verður valkvæðið að standa. 

Miðstjórn RSÍ áréttar að mikilvægt er að Alþingi breyti lögum um lífeyrissjóði þar sem félagsmönnum er gert heimilt að ráðstafa iðgjaldi í tilgreinda séreign eins og samið var um á sínum tíma. Þá er lykilatriði að lagabreyting verði í samræmi við ákvæði kjarasamningsins enda starfa lífeyrissjóðir í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA.

asi rautt

Miðstjórn Alþýðusamband Íslands fagnar umræðu að undanförnu þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu áreiti og ofbeldi í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. Þetta er svartur blettur á samfélaginu og enn eitt dæmið um kynbundna mismunun sem uppræta ber með öllum tiltækum ráðum.

Verkalýðshreyfingin hafnar allri mismunun og órétti á vinnumarkaði. Á því byggir sjálf tilvist hennar. Í því felst að verkalýðshreyfingin hafnar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis, þ.m.t. kynbundnum launamun og einelti og kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.

Barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks á fjölmörgum sviðum hefur skilað miklum árangri, m.a. í reglum um vinnuvernd, leiðbeiningum til trúnaðarmanna um meðferð slíkra mála o.fl. Þrátt fyrir það verður að viðurkenna að enn er langt í land. Það gildir um kynbundna mismunun á vinnumarkaði.

Miðstjórn hvetur aðildarsamtök Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfinguna alla til að styðja með öllum ráðum einstaklinga sem stíga fram og hafna hvers konar einelti og ofbeldi á vinnustað. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

 

raf

Starfslýsing:

Í starfinu felst meðal annars að leiða og halda utan um eftirmenntunarnámskeið á sviði veikstraums og stýra innleiðingu nýrra námskeiða auk þróunar núverandi námskeiða. Viðkomandi starfsmaður starfar jafnframt með öðrum starfsmönnum Rafiðnaðarskólans að framgangi eftirmenntunar fyrir félagsmenn RSÍ og SART.
Sviðsstjóri veikstraums er talsmaður þess sviðs í nánu samstarfi við skólastjóra. Gert er ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður sinni einhverri kennslu.

Starfskröfur:

• Víðtæk þekking og reynsla á sviði veikstraums

• Frumkvæði, drifkraftur og metnaður

• Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti

Nánari upplýsingar veitir Stefán Sveinsson, skólastjóri, This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Umsóknarfrestur er til og með 15. nóvember 2017.

Öllum umsóknum verður svarað og 100% trúnaðar gætt.

 

Spjald

Í haust hafa Rafiðnaðarsamband Íslands og Samtök rafverktaka haldið áfram að færa rafiðnaðarnemum spjaldtölvu að gjöf. Verkefnið hófst fyrir ári síðan og að þessu sinni fengu 254 nemendur spjaldtölvugjöf eða allir nýnemar í rafiðnaði. Fulltrúar RSÍ og SART heimsóttu allar 8 rafnámsgrunndeildir verknámsskólanna og var þeim vel tekið.

Með þessu átaki tryggja SART og RSÍ jafnan aðgang allra rafiðnaðarnema að gjaldfrjálsu íslensku námsefni í rafiðnaðargreinum sem er að finna á www.Rafbók.is . SART og RSÍ hafa nú fært öllum rafiðnaðarnemum og rafiðnaðarkennurum á landinu spjaldtölvu og vona að gjöfin muni nýtast vel í námi og starfi.

VMA

orlofslog

Miðvikudaginn 1. nóvember kl 9:00 verður opnað á bókanir orlofshúsa innanlands fyrir tímabilið 6. janúar til 25. mai 2018 að undanskildum páskum. Upplýsingar um páska- og sumarumsóknir verða sendar í fréttabréfi mánudaginn 30. október. 

asi bleikur

Samkvæmt nýrri hagspá hagdeildar ASÍ fyrir árin 2017-2019 sýnir hagkerfið nú merki um að hægja muni á umsvifum eftir kraftmikinn hagvöxt undanfarinna ára. Toppi hagsveiflunar hefur verið náð en áfram verður umtalsverður hagvöxtur á spátímanum sem  drifinn verður af vexti einkaneyslunnar fremur en auknum útflutningi eða fjármunamyndun. (lesa meira)

rafidnadarsambandidNýverið kom upp mál varðandi nema í matreiðslu en til langs tíma hafa erlendir nemar getað aflað sér menntunar hér á landi til jafns við aðra. Um áramótin voru gerðar viðamiklar breytingar á útlendingalögunum þar sem stór breyting var gerð á þessum þætti laganna. Samkvæmt breytingunni sem Alþingi gerði féll út sá þáttur að erlendir einstaklingar geti aflað sér menntunar hér á landi ætli þeir sér að sækja sér iðnmenntun en það sem er enn fáránlegra er að þeir sem vilja sækja sér háskólamenntun geta það áfram. 

Þarna er klárlega verið að mismuna fólki eftir þjóðerni til þess að afla sér menntunar sem er algjörlega galið. Að Alþingi geri svo viðamiklar breytingar á lögunum án þess að þess sé getið við umsagnarferlið eða þess sé getið í athugasemdum við lagafrumvarpið hvers vegna verið sé að gera slíkar breytingar.

Umsagnarfrestur var stuttur þegar málið barst til umsagnar ASÍ og kemur það fram í umsögn ASÍ að sökum stutts tíma og þar með tímaskorts að ekki hafi verið mögulegt að fara skilmerkilega yfir frumvarpið að öllu leyti. 

Við gerum fastlega ráð fyrir því að Alþingi og/eða Útlendingastofnun viðurkenni að um mistök sé að ræða og leiðrétti þessi mistök. Það getur varla verið að þessi mismunum eða menntahroki eigi við rök að styðjast.