Fréttir frá 2017

06 23. 2017

Vegna hækkunar á mótframlagi í lífeyrissjóði

rafidnadarsambandid2Í gær var aukaársfundur Birtu lífeyrissjóðs haldinn. Til umræðu og afgreiðslu voru tillögur að breytingum á samþykktum Birtu lífeyrissjóðs í tengslum við hækkun mótframlags atvinnurekenda sem samið var um 2015 og útfært endanlega 21. janúar 2016. Þann 1. júlí hækkar mótframlag um 1,5 prósentustig og er þá búið að hækka um 2 prósentustig frá árinu 2016. 

Það er skemmst frá því að segja að þær tillögur sem lágu fyrir voru samþykktar á fundinum og þar með, að fenginni staðfestingu frá Fjármálaeftirlitinu og Fjármálaráðuneytinu, verður stofnuð ný deild í Birtu lífeyrissjóði sem mun kallast T-deild. Félagsmenn aðildarfélaga RSÍ munu geta valið um að ráðstafa auknu mótframlagi, að hluta eða öllu leyti, í þessa nýju T-deild eða tilgreinda séreign. 

Birta lífeyrissjóður er tilbúinn með kynningarefni þessu tengt og mun setja mjög greinargóða reiknivél í loftið þegar FME og Fjármálaráðuneytið hafa staðfest þessar breytingar en gert er ráð fyrir að það verði gert á tiltölulega skömmum tíma. Breytingarnar eiga að gilda frá 1. júlí næstkomandi, með þessum fyrirvara.

RSÍ hvetur félagsmenn til þess að kynna sér þetta betur á heimasíðu Birtu, eða smella hér.