rafidnadarsambandid2í dag, þann 28. apríl er aðgerðardagur alþjóðlegra samtaka launafólks þar sem þeirra starfsmanna er minnst sem hafa slasast eða látist í vinnuslysum. Sambandsstjórnarmenn RSÍ létu ekki sitt eftir liggja og styðja þau félög sem eru í baráttu við LafargeHolcim þar sem eingöngu er farið fram á að fyrirtækið bæti stöðu í heilbrigðis- og öryggismálum og tryggi öryggi starfsmanna. 

Á síðustu tveimur árum hafa yfir 150 manns látið lífið við vinnu hjá LafargeHolcim en það er eingöngu toppurinn á ísjakanum því fleiri hafa slasast illa við vinnu og búa starfsmenn við óöruggt vinnuumhverfi þrátt fyrir að fyrirtækið hafi sagst ætla að bæta stöðu starfsmanna.

Sambandsstjórn RSÍ sendir því skilaboðin: "keep your word: RESPECT WORKERS LIVES!"

BWI LafargeHolcim2018

 

rafidnadarsambandid rautt 1mai 2018

Dagskrá hátíðahalda 1. maí

Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur alla félagsmenn til að sýna samstöðu og mæta á hátíðahöld í tilefni dagsins sem haldin eru víðsvegar um landið.(smella hér)

Rafiðnaðarsambandið býður félagsmönnum og gestum þeirra upp á kaffiveitingar á Stórhöfða 27, 1 hæð gengið inn Grafarvogsmegin, að loknum hátíðahöldum.

Rafiðnaðarfélag Norðurlands býður félagsmönnum á Akureyri og nærsveitum upp á kaffi í Hofi að loknum hátíðahöldum. 

Dagskrá 1. maí hátíðahaldanna í Reykjavík 2018 verður sem hér segir:

  • Safnast saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13:00
  • Kröfugangan hefst klukkan 13:30
  • Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni
  • Útifundur á Ingólfstorgi settur klukkan 14:10
  • Dagskrá útifundar: 
  • Síðan skein sól
  • Ræða: Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
  • Ræða: Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM
  • Heimilistónar
  • Samsöngur – Maístjarnan og Internasjónalinn

Fundarstjóri: Þórarinn Eyfjörð

Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og Kolbrún Völkudóttir mun syngja á táknmáli í tónlistaratriðum

Orlof 2018

 

Orlofsuppbótin greiðist þann 1.júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu.

Orlofsuppbót 2018 á almenna markaðnum....... kr. 48.000

Orlofsuppbót greiðist með launagreiðslu 1. Júní 2018. Fjárhæð orlofsuppbótar er ákveðin í kjarasamningi en á almenna kjarasamningi RSÍ og SA/SART er hún 48.000 kr. Sú fjárhæð miðast við fullt starf en uppbótin greiðist hlutfallslega ef starfsmaður hefur unnið hluta ársins eða er í hlutastarfi. Allir sem eru í starfi fyrstu viku í maí eða hafa starfað samfellt í 12 vikur hjá sama aðila á sl. 12 mánuðum eiga rétt á uppbótinni.

Þá er orlofstíminn hafinn og rétt að árétta helstu reglur er snúa að orlofi. Reglur um orlof eru annars vegar í kjarasamningi og hins vegar í lögum. Lágmarksorlof miðað við fullt starf er 24 dagar og hækkar upp í 30 daga eftir starfsaldri. Nánar má lesa um ávinnslu í kjarasamningi. Starfsmenn eiga rétt á því að taka a.m.k. 20 virka daga í orlof á tímabilinu 2. maí til 15. september, í einu lagi kjósi þeir svo. Atvinnurekandi á að reyna að verða við óskum starfsmanns um orlof. 

Hér er einungis tæpt á helstu reglum um orlof og orlofsuppbót. Ef  einhverjar spurningar vakna hafið samband við skrifstofu RSÍ.

asi rautt 1mai 2018

Sterkari saman

Verkalýðshreyfingin á Íslandi varð til í lok 19. aldar þegar verkafólk hóf að skipuleggja sig í stéttarfélög. Það áttaði sig á aflinu sem bjó í fjöldanum og samtöðunni og gerði hvað það gat til að virkja það afl. Frá þeim tíma hefur sameinuð verkalýðshreyfing barist fyrir réttindum og kjörum launafólks á Íslandi með þeim árangri að óvíða í heiminum er staða fólks á vinnumarkaði sterkari en hér. Þar leikur samstaðan lykilhlutverk. 

Nú horfum við hins vegar upp á vaxandi misskiptingu tekna og auðs í samfélaginu. Alþingismenn, embættismenn ríkisins og stjórnendur fyrirtækja taka launahækkanir langt umfram venjulegt launafólk og skattar eru lækkaðir á stóreignafólk. Á sama tíma taka stjórnvöld kaupmáttaraukninguna frá hinum lægst launuðu með skattahækkunum og skerðingu bóta. 

Það er verk að vinna fyrir samhenta og samstæða verkalýðshreyfingu. Við erum fámenn þjóð í gjöfulu landi og það verður að skipta gæðunum af sanngirni. Við höfum vopnin og við höfum aflið ef við stöndum saman.

Eftir harðvítugt sex vikna verkfall árið 1955 náðist sigur á ýmsum sviðum verkalýðsbaráttunnar og atvinnuleysistryggingum var komið á. Þá var skrifað stóru letri á forsíðu Vinnunnar, blaðs ASÍ: 

Sterk og sameinuð verkalýðssamtök höfðu varið rétt sinn með sæmd ok komu heil hildi frá.

 

 

rafidnadarsambandid rautt

Útilegukortið er komið í sölu. Verð til félagsmanna kr. 13.000. Hægt er að kaupa kortið á skrifstofu RSÍ eða panta í gegnum orlofsvefinn og fá sent heim

 

 

 

 

 

 

 

ftr

Aðalfundur FTR verður haldinn miðvikudaginn 18. apríl 2018, kl. 17.00, á Stórhöfða 31, fjórðu hæð

DAGSKRÁ:

1. Skýrsla stjórnar.

2. Samþykkt reikninga

3. Lagabreytingar.

4. Kosningar.

5. Tillaga að sameiningu við
    Félag sýningarmanna við kvikmyndahús.

9. Önnur mál.

Reykjavík 7. apríl 2018

Kveðja, stjórnin

 

felag rafeindavirkja

Aðalfundur Félags rafeindavirkja verður haldinn miðvikudaginn 18. apríl 2018 kl. 17:30 á Stórhöfða 27, gengið inn að neðanverðu. (Grafarvogs megin) Logo FRV 50 ara small

Dagskrá:

• Venjuleg aðalfundarstörf.

• Kosning fulltrúa í fulltrúaráð Birtu, lífeyrissjóðs.

• Önnur mál.

Reykjavík 7. apríl 2018

Stjórn Félags rafeindavirkja

 

rafidnadarsambandid2Hér er hægt að skoða myndir frá sveinsbréfaafhendingunni sem fram fór í gær, 49 nýsveinar í rafvirkjun mættu í afhendinguna og 3 nýsveinar í rafeindavirkjun. Smelltu hér til að sjá myndirnar. Sveinsbréf verða afhent á Akureyri laugardaginn 5. maí. Óskum við nýsveinum innilega til hamingju með þennan flotta árangur.

asi rauttAlþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) undirrituðu í gær samkomulag um eftirlit með launum og starfskjörum starfsmanna starfsmannaleiga, ábyrgð notendafyrirtækja og sérstaka viðurkenningu starfsmannaleiga.

Jafnt starfsmannaleigur og notendafyrirtæki þurfa að vera meðvituð um skyldur sínar gagnvart starfsmönnum, þannig að tryggt sé að starfsmenn starfsmannaleiga njóti þeirra kjara og réttinda sem þeim ber.

Til að tryggja betur framangreind markmið og réttindi starfsmanna starfsmannaleiga eru samningsaðilar sammála um eftirfarandi aðgerðir:

a) Starfsmannaleigum gefist kostur á að undirgangast sérstakt launaeftirlit af hálfu stéttarfélaga og samráðsnefndar ASÍ og SA. Það felur í sér að þær leggi fram gögn svo að hægt sé að sannreyna að þær uppfylli skilyrði laga og kjarasamninga varðandi laun og önnur starfskjör starfsmanna sinna.

b) Samráðsnefnd ASÍ og SA veiti þeim starfsmannaleigum viðurkenningu sem undirgengist hafa sérstakt launaeftirlit og uppfylla skilyrði samkomulagsins að öðru leyti.


c) Lögfest verði ábyrgð notendafyrirtækja á vangoldnum launum starfsmanna starfsmannaleiga sbr. frumvarp félags- og jafnréttisráðherra sem dreift hefur verið á Alþingi, mál nr. 468.

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa axlað sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins og réttindum og skyldum sem þar gilda. Samtökin líta á það sem sameiginlegt verkefni samtakanna að treysta í sessi heilbrigðan vinnumarkað þar sem gætt er að umsömdum réttindum launafólks.

ASÍ og SA hafa látið sig málefni starfsmannaleiga varða. Kemur þá tvennt til, annars vegar að starfsmenn þeirra eru nærri undantekningarlaust erlendir og því ríkari þörf fyrir eftirliti með kjörum þeirra og hins vegar að starfsemi starfsmannaleiga felur í sér frávik frá meginreglu íslensks vinnumarkaðar um að starfsmenn séu ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitanda.

Við gerð samkomulags þessa eru 30 starfsmannaleigur skráðar hjá Vinnumálastofnun. Markmið samkomulagsins er m.a. að tryggja réttindi starfsmanna þeirra og auka traust aðila vinnumarkaðarins og notendafyrirtækja til starfsemi þeirra. Samningsaðilar leggja áherslu á að notendafyrirtæki, þ.e. þau fyrirtæki sem eru með starfsmenn starfsmannaleiga í þjónustu sinni, sýni ábyrgð, taki ekki þátt í brotum gegn starfsmönnum starfsmannaleiga og skipti einungis við starfsmannaleigur sem þau bera traust til.

asi rauttAllt að 117% eða 8.050 kr. munur var á umfelgun fyrir bíla með dekkjastærðina 265/60R18 (stórir jeppar með 18‘‘ dekk) í verðkönnun á umfelgun sem Verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi þann 10. Apríl síðastliðinn. Könnunin var framkvæmd á 30 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið og var Bifreiðaverkstæðið Stormur á Patreksfirði oftast með lægsta verðið eða í 9 tilvikum af 10 en Klettur var oftast með það hæsta eða í 5 tilvikum af 10. Fyrirtækin Sólning, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan, Toyota Selfossi, Hjólbarðaverkstæði Magnúsar- Selfossi og Höldur á Akureyri neituðu öll að upplýsa fulltrúa Verðlagseftirlitsins um verð á þeirri þjónustu sem þeir selja neytendum.

Mestur verðmunur á umfelgun á stærri bílum
Í könnuninni var verð skoðað á skiptingu á dekkjum, umfelgun og jafnvægisstillingu á ákveðnum dekkjastærðum fyrir nokkrar tegundir bíla. Mestur verðmunur var á bílunum með stærstu dekkin en verðmunurinn fór minnkandi eftir því sem dekkin urðu minni. Þannig var 117% munur á umfelgun á stórum jeppum með 18‘‘ stálfelgur, lægsta verðið hjá Nicolai bílaverkstæði, 6.900 kr. en það hæsta hjá Kletti, 14.950 krónur. Verðmunurinn er minni, 82% eða 5.096 kr. á umfelgun fyrir jepplinga með 16‘‘ dekk, lægsta verðið mátti finna hjá Stormi á Patreksfirði, 6.200 kr. en það hæsta á Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar, 11.296 kr. Verðmunurinn er síðan kominn í 51%-54% fyrir minni bíla.

Costco býður einnig upp á hjólbarðaþjónustu og var þar af leiðandi með í könnunni en þar sem að þeirra verð á umfelgun fæst einungis með því að kaupa dekk er það ekki að fullu sambærilegt verði fyrir umfelgun hjá öðrum fyrirtækjum. Verð fyrir umfelgun hjá Costco er 4.400 fyrir allar stærðir af dekkjum að því gefnu að þú kaupir að lágmarki 2 dekk.

Nánari niðurstöður má finna í töflu (smella hér)

Margir neita þátttöku
Enn og aftur vekur það athygli í könnun sem þessari hversu margir þjónustuaðilar vilja ekki að verð þeirra séu birt. Það er réttur neytenda að fá upplýsingar um verð á þjónustu og vöru og grundvöllur heilbrigðrar samkeppni á markaði. Sjö fyrirtæki neituðu þátttöku að þessu sinni en það eru Sólning, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan, Toyota Selfossi, Hjólbarðaverkstæði Magnúsar- Selfossi og Höldur á Akureyri. Þetta er miður enda er tilgangurinn með verðkönnunum eins og þessari að safna saman upplýsingum um verð og gera þær aðgengilegar almenningi.

Verðlagseftirlitið vill taka fram að fulltrúum þess var vel tekið hjá flestum þjónustuaðilum.

Um verðkönnun:
Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14“,15“, 16“ og 18´´ á 30 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Selfossi, Ísafirði, Patreksfirði, Akureyri og Borgarnesi. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afsætti t.d. fyrir félagsmenn FÍB, eldri borgara og staðgreiðsluafslátt, viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Nánari niðurstöður má finna í töflu (smella hér)

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.