Fréttir frá 2003

12 17. 2003

Skemmdarverk á lífeyriskerfinu.

Ef litið er yfir mannskynssöguna þá blasir sú staðreynd að ef stjórnarherrar eru of lengi við völd þá glata þeir tilfinningunni fyrir kjörum almennings, spilling eykst og stjórnarathafnir fara að einkennast af eiginhagsmunum umfram hagsmuni hins almenna borgara. Samtök launamanna og atvinnurekendur höfðu á sínum tíma þá framsýni að byggja upp raunsætt lífeyriskerfi með eðlilegri tryggingu. Því miður hafa núverandi stjórnvöld nokkrum sinnum á starfstíma sínum unnið skemmdarverk á þessu kerfi, með því að hygla ákveðnum hópum opinberra starfsmanna og í skjóli þess hafa verið byggðir upp gjörsamlega óraunsæir lífeyrissjóðir alþingismanna og enn fáránlegri lífeyrissjóðir ráðherra.  Ef litið er yfir mannskynssöguna þá blasir sú staðreynd að ef stjórnarherrar eru of lengi við völd þá glata þeir tilfinningunni fyrir kjörum almennings, spilling eykst og stjórnarathafnir fara að einkennast af eiginhagsmunum umfram hagsmuni hins almenna borgara. Samtök launamanna og atvinnurekendur höfðu á sínum tíma þá framsýni að byggja upp raunsætt lífeyriskerfi með eðlilegri tryggingu. Aðrar þjóðir hafa á undanförnum árum verið að fara inn á sömu brautir. Því miður hafa núverandi stjórnvöld nokkrum sinnum á starfstíma sínum unnið skemmdarverk á þessu kerfi, með því að hygla ákveðnum hópum opinberra starfsmanna og í skjóli þess hafa verið byggðir upp gjörsamlega óraunsæir lífeyrissjóðir alþingismanna og enn fáránlegri lífeyrissjóðir ráðherra.   Fyrir dyrum eru almennir kjarasamningar, þær kröfugerðir sem búið var að leggja fram einkenndust af raunsæi og vilja til þess að halda áfram á þeirri braut sem samtök launamanna hafa markað ásamt samtökum atvinnurekenda. Þetta átti að gera þrátt fyrir að stjórnarherrar settu allt á annan endann í vor með því að skenkja sér launahækkun langt umfram það sem almennir launamenn áttu kost á.   Skyndilega í skjóli myrkurs nokkrum klukkutímum áður en þinglok voru fyrirhuguð er skellt fram á borðið frumvarpi þar sem hygla á æðstu stjórnendum og með einstaklega glæsilegum starfslokakjörum. Forysta verkalýðshreyfingarinnar benti á að þetta gæti ekki leitt til annars en að launamenn myndu rísa upp og segja hingað og ekki lengra. Starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar fóru ítarlega yfir frumvarpið með aðstoð færustu sérfræðinga. Þeir bentu á að kostnaður vegna þessa frumvarps væri mikill og myndu myndarlegar upphæðir renna beint í vasa forsætisráðherra og innan skamms tíma myndi formaður hins stjórnarflokksins eiga samskonar rétt. Athygli vakti einnig að á meðan skerðingarmörk bóta okkar venjulega fólksins eru svo lág að við verðum að una því að ef við sinnum einhverjum launuðum verkefnum glötum við bótarétt. Í þessum nýju eftirlaunalögum ráðherra er ákvæði um að ef æðstu ráðamenn sinni ritstörfum glati þeir ekki réttindum.   Athygli vakti að stjórnarþingmenn sögðu að ekki væri um laun að ræða, bara einhver samræming á lífeyrisréttindum. Síðan komu einhverjar dylgjur um launakjör starfsmanna stéttarfélaga. Þau eru öllum ljós og birt í fjölmiðlum á hverju ári. Lífeyrisréttindi eru launakjör, sama gildir um starfslokaréttindi. Þegar laun okkar eru reiknuð út er reiknaður út launakostnaður, uppsagnarfrestur er metinn, lífeyrisréttindi eru metin. Það er staðreynd að launakjör þingmanna og ráðherra voru allt of lág, en það er búið að bæta þau um 100% síðustu ár. Þegar stjórnarþingmenn ræða sín launmál taka þeir ætíð strípuð grunnlaun og bera það svo saman við heildarlaunapakka annarra. Gagnrýni okkar snérist ekki um laun þeirra. Hún snérist um að verið væri að bæta lífeyris- og starfslokaréttindi langt umfram það sem ásættanlegt væri, réttindi sem voru þegar mjög rífleg. Réttindi sem þegar voru langt umfram það sem aðrir hafa, græðgisvæðingin var við völd.   Nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn áttuðu sig á að ekki væri allt með felldu og báðu um skýringar. Þeim var tjáð að þetta kostaði ekkert, kannski 5 millj. eins og forsætisráðherra sagði. Stjórnarþingmenn ásamt forsætisráðherra hafa farið hamförum og ausið fúkyrðum og svívirðingum yfir landslýð. Allt háttalag og málflutningur þeirra ber einkenni veruleikafyrts fólks, sem ekki er í neinum tengslum við hinn almenna borgara. Það ber greinileg merki þess að þarna fer fólk sem hefur verið allt of lengi við völd og er orðið spillt. Græðgi og gæska gagnvart eiginhagsmunum er að ná völdum. Undanfarin sólahring hafa stjórnarþingmenn með forsætisráðherra í broddi fylkingar sakað stjórnarandstöðu um að hún geti ekki staðið undir ábyrgð, hún láti stjórnast af fólki út í bæ!! Hvað er þetta fólk út í bæ sem stjórnarandstaðan er að hlusta á? Þetta er ekki hægt að skilja öðru vísi en svo að forsætisráðherra og stjórnarþingmenn telur það á svo lágu stigi að það sé ekki þeim samboðið að hlusta á það. Þetta fólk ert þú lesandi góður, við almenningur þessa lands, skattgreiðendur. Það er svo komið að stjórnarherrar okkar telja okkur svo mikinn lágaðal að við séum ekki þess virði að hlusta á okkur. En við lágaðallin eigum aftur á móti að greiða skattana þegjandi og hljóðalaust og við eigum að njóta mun verri kjara en þeir vilja skammta sér. Nú er svo komið að við blasa gífurleg átök á vinnumarkaði næstu mánuðina, okkur venjulega fólkinu er algjörlega ofboðið. Við verðum að koma í veg fyrir að þetta fólk vinni meiri skemmdarverk á íslensku þjóðfélagi, við þurfum að senda það í endurhæfingarfrí.. 17.12.03 Guðmundur Gunnarsson  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?