Fréttir frá 2006

12 6. 2006

Spurt og svarað

Á trúnaðarráðstefnu komu fram óskir um að taka aftur upp að birta helstu spurningar semeru sendar skrifstofu og svör. Hér kemur fyrsti skammtur spurninga sem hafa borist undanfarna daga. ástæða er að geta þess að sum eldri svara undir hnappnum Spurt og svarað eru úrelt. Munum við fara markvist yfir þau og uppfæra svörin.Góðan dag Ég heiti XX mig langar að spyrja ykkur hvernig það er með val starfsmanna um í hvaða stéttafélagi þeir vilja vera.  Það var að byrja hér nýr starfsmaður í tæknideild hann sækist eftir að vera í öðru félagi, en tæknimennirnir sem eru í RSÍ. Eru ekki einhverjar reglur um hvaða störf tilheyra hvaða félagi ? M. fyrirfr. þökk VV   Sæl VV Venjan er sú að það sé samningssvið og starfsgrein sem ráði í hvaða stéttarfélagi viðkomandi eigi að vista sig. Viðkomandi stéttarfélag er búið að leggja vinnu og fjármuni í að berja í gegn kjarasamning fyrir umrædd störf. Félagsmenn og þá samstarfsmenn viðkomandi, hafa lagt sitt að mörkum til að árangur náist. Vilji viðkomandi ekki vera félagsmaður þá beri honum að greiða vinnuréttargjald (félagsgjald) til viðkomandi stéttarfélags, en honum sé vitanlega heimilt að greiða líka í önnur félög.   Þetta snýst líka um hvaða störf þessi starfsmaður ykkar sinnir, er hann að vinna hjá ykkur við störf sem ekki falla undir rafiðnaðarstörf eða einhver önnur sem falla þá undir samningssvið annarra stéttarfélaga. Ef svo væri þá er eðlilegt að viðkomandi greiði í það félag.    Nú er það svo að RSÍ hefur ekki ástundað rannsóknir á því hvort þeir sem starfi innan starfsgeira RSÍ eins og td starfsmenn ykkar fyrirtækis eða annarra fyrirtækja séu félagsmenn RSÍ. Það er frekar að sú staða geti komið upp að samstarfsmenn viðkomandi hafni því að vinna með honum. Kv Guðmundur    ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------     Sæll Guðmundur Ég er nýútskrifuð í Danmörku. Ég er að leita mér upplýsinga um stéttarfélög hér á Íslandi, er möguleiki á að fá sent upplýsingar um RSI, félagsgjöld og þess háttar annað hvort með pósti eða á rafrænan hátt? Hvernig skrái ég mig í félagið? Ég hef búið í Danmörku í 11 ár og er ekki alveg með á hreinu hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hér heima. Kveðja XX Sæl Félagsgjöld RSÍ eru 1.1% af launum. Þak er á félagsgjaldinu, ef það fer upp fyrir ákveðið mark á ári þá er það endurgreitt. Reiknað er með að iðgjaldið lækki um 10% eða í 1% áramótin 07/08. Önnur gjöld eru 1% í sjúkrasjóð, 0,25% í orlofssjóð og 1% í menntasjóð. Þetta eru launatengd gjöld sem atvinnurekandi greiðir. Annars bendi ég á heimasíðu okkar -rafis.is- til þess að sjá reglugerðir styrki og fl. kv Guðmundur ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------     Sæll Guðmundur Sendi þér spurningar um trúnaðarmenn   1. Hve langt er "kjörtímabil" trúnaðarmanns?   2. Eru fastar reglur um fjölda trúnaðarmanna á hverjum vinnustað?, og eru t.d. sérreglur um trúnaðarmenn eða fjölda þeirra á vinnustaðnum sem eru klárlega deildaskiptir Kv CB   Sæll CB Svar 1) Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er kveðið á um að starfsmönnum sé heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 til 50 starfsmenn og tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50 til tveggja ára í senn.  Verði kosningu eigi við komið eru trúnaðarmenn tilnefndir af RSÍ til tveggja ára í senn.     2) Venjan er sú að hvert verkalýðsfélag hefur sinn trúnaðarmann þar sem starfsmenn úr mörgum verkalýðsfélögum vinna á sama vinnustað, enda er það tekið fram í samningum.  Þá er einnig algengt að trúnaðarmenn séu fyrir hverja deild og hverja vakt ef um slíkt vinnufyrirkomulag er að ræða.   Á smærri vinnustöðum, þar sem félagsmenn margra stéttarfélaga vinna saman, kýs fólk trúnaðarmann sem starfar fyrir alla.   Allir félagsmenn verkalýðsfélagsins á vinnustaðnum eru kjörgengir sem trúnaðarmenn.  Er það því meginreglan, en leitast við að velja trúnaðarmenn sem fólk hefur trú á að muni standa sig í því hlutverki.   Ekki er hægt að mæla með verkstjóra í stöðu trúnaðarmanns.  Verkstjóri er fulltrúi atvinnurekanda og ber fyrst og fremst skyldur gagnvart honum.  Engu breytir þó verkstjóri sé félagsmaður í verkalýðsfélagi.  Ekki ætti heldur að velja þann í stöðu trúnaðarmanns sem gegnir starfi verkstjóra í forföllum hans.  Vilji svo til að trúnaðarmaður sé gerður að verkstjóra, er best að kjósa sem fyrst annan í stöðu trúnaðarmanns.   Tilkynna skal RSÍ hver hafi verið kosinn trúnaðarmaður. RSÍ tilkynnir skriflega viðkomandi atvinnurekanda um kjör eða val trúnaðarmanna eftir að það hefur farið fram.  Einungis þannig er tryggt að trúnaðarmenn verkalýðsfélaganna njóti verndar samkvæmt 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Kv. Guðmundur   ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------     Góðan daginn Mig vantar að vita hver uppsagnarfrestur minn sé, ég er á vinnustað sem ég er búinn að vinna á í 4. og hálfan mánuð og er búinn að segja upp en hef ekkert skrifað undir ráðningarsamning eða neinn samning,  vinnuveitandi minn segist geta haldið mér út árið því að hann segir að ég eigi mánuð uppsagnarfrest en það myndi ekki taka gildi fyrr en næstu mánaðarmót. KveðjaZX   Sæll ZX Þetta er rétt hjá vinnuveitanda þínum. Þú ert með 1 mánuð í uppsagnarfrest og uppsagnarfrestur byrjar ætíð að telja næstu mánaðarmót eftir að sagt er upp, það er að segja ef þú segir upp núna byrjar það að telja um næstu mánaðarmót. Kv GG --------------------   Sæll aftur Hvað get ég gert til að komast fram hjá þessu, vinnuveitandinn sem ég er búinn að ráða mig til vill fá mig sem fyrst, ég fæ miklu betri laun þar, gæti ég hætt að mæta t.d. seinasta mánuðinn hjá núverandi stað og vinnuveitandi minn sleppt því að borga mér laun fyrir seinasta mánuðinn? Getur eitthvað gerst? Kveðja ZX   Sæll ZX Sú áhætta sem þú tekur er að vinnuveitandi þinn getur hýrudregið eins það er kallað. Það er að neita að greiða þér það sem þú átt inni hjá honum. Það er uppsafnað orlof og desemberuppbót. Hér er um gagnkvæman rétt að ræða. Þá er átt við er ef vinnuveitandi þinn myndi "henda þér út" þá myndum við heimta að hann borgaði þér uppsagnarfrest. Á sama hátt getur vinnuveitandi krafist af þér. Það er að fá frá þér mánaðarlaun sem hann myndi þá neita að gera upp við þig það sem þú ættir inni hjá honum og við gætum ekki innheimt það hjá honum. Oft er það svo að menn ná einhverju samkomulagi. Því það eru líkur á að launþegi skili ekki fullum afköstum ef hann er gegn vilja sínum í vinnunni. Kv GG         Hæhæ Ég hef 2 spurningar Ef viðkomandi er að vinna á rafeindaverkstæði er með stúdentspróf í upplýsinga -og tæknibraut, flokkast ég þá undir "Tæknifólk í rafiðnaði"   Önnur spurningin er hvort það sé löglegt að dagvinna sé frá 9:00 til 18:30 (sem sagt hálftími í matartíma sem er ekki borgaður) Takk fyrir Kveðja. CV   Sæll CV Ef viðkomandi vinnur við þessi störf og hefur ekki sveinspróf í rafiðnaðargrein er hann í Félagi tæknifólks í rafiðnum   Ef unnið er frá kl 09.00 til 18.30 og teknar 30 mín í mat og ekki farið í kaffi þá á að greiða 8 dagvinnutíma og 2 klst. í yfirvinnu. Ef teknir eru kaffitímar þá á að greiða 8 dagvinnust. og 1.5 yfirvklst. Kv GG ---------------------   Hæhæ aftur Meinti reyndar til 17:30. Dagvinna hjá mér er frá 09:00 til 17:30, og ég er að pæla hvort þeir séu ekki skyldugir til að borga hálftíma í yfirvinnu þar sem ég er bara hálftíma í mat. Þessi hálftími er semsagt ekki borgaður Kv CV   Sæll aftur CV Hádegisverðartími er ekki greiddur vinnutími eins og kaffitímar. Það þýðir að þú mátt fara í kaffi 15 mín. að morgni og 20 mín. og ert á kaupi þegar þú ferð í þessi neysluhlé. Ef þú vinnur kaffitímana þá áttu rétt á að fá þá greidda í yfirvinnu. Ef þú vinnur td. frá kl. 9.00 til 12.00 og ferð í kaffi og ferð svo í 30 mín. hádegismat og vinnur svo frá 12.30 - 17.30 og ferð í kaffi, þá er tímaskrift þín þannig   9.00 - 12.00 = 3 tímar 12.30 - 17.30 = 5 tímar Samtals 8 dagvinnutímar Kl. 17.30 byrjar yfirvinnutímabil   Ef þú færir í mat milli 12.00 - 13.00 þá átt þú að vinna til kl. 18.00 þá ert þú búinn að ná 8 dagvinnutímum. Kl. 18.00 byrjar yfirvinnutímabil Kv GG   ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------     Komdu sæll Guðmundur Mig langar vita? Geta rafeindavirkjar unnið á rafmagnsverkstæði við hliðina á rafvirkjum, þá meina ég hvaða vernd hafa rafvirkjar gagnvart þessu. Ef þetta er hægt geta rafvirkjar þá farið að vinna á rafeindaverkstæðum. Með kveðju  ZX   Sæll ZX Sú þróun hefur átt sér stað á allt frá því að RSÍ var stofnað að skilgreining milli rafiðnaðarstarfa hefur runnið meir og meir saman. Enda er sá rafbúnaður sem settur er í hús í dag svo margflókinn að rafverktakafyrirtækin ráða jöfnum höndum rafeindavirkja og rafvirkja og þeir vinna hlið við hlið og ganga hver í annarra störf. Kv GG     ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------       Góðan daginn, Við erum 5 manna hópur, sem er að skrifa ritgerð um störf innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði í samhengi við menntun þeirra. Ég er að afla upplýsingar um menntunarhlutann. Hver er menntun innflytjenda? Hvernig nýtist menntun þeirra á íslenskum vinnumarkaði.? Er tengsl milli starfsframa og menntunar?   Spurning: Eru til upplýsingar um menntun fólks af erlendum uppruna?   Hafið þið skráð menntun félagsmanna hjá ykkur?   Hve stórt er hlutfall erlend vinnufólks í stéttarfélagi ykkar?   Í hvaða störfum eru þau?   Samsvara störf útlendinga menntun þeirra? Takk fyrirfram, kveðja MMU   Sæl MMU 1. Vilji rafiðnaðarmaður geta hafið störf innan rafiðnaðargeira þarf hann að fá menntun sína viðurkennda. Það gerir hann með því að senda inn upplýsingar um menntun sína til Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og þar fær hann raunfærnimat. Þetta tekur yfirleitt 1 dag. Samsvari menntun hans því sem krafist er gagnvart íslenskum rafiðnaðamönnum þá fær hann menntun sína viðurkennda og getur starfað sem slíkur hér á landi. Ef eitthvað vantar upp á er viðkomandi bent á hvað vanti og hann getur hafið störf hér sem nemi eða aðstoðarmaður.   2. Hjá Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins er haldið saman skrá um menntun rafiðnaðarmanna.   3. Erlendir rafiðnaðarmenn eru í um 400 af 5000   4. Hinir erlendu félagsmenn okkar eru langflestir við línulagnir og uppbyggingu álvera, annars öllum störfum innan rafiðnaðargeirans   5. Þeir sem fá menntun sína metna og fara í gegnum raunfærnimat vinna hér með fullum réttindum. kv Guðmundur   ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?