Fréttir frá 2009

12 10. 2009

Ömurleg staða

Í framhaldi af þingi Evrópusambands byggingarmanna hófst þing Alþjóðasambandsins. Það tekur verulega á mann að hlusta á fulltrúa suður Ameríku landanna lýsa stöðu sinni. Fulltrúar þeirra segja að enn séu að störfum þar „hitmen" frá stóru bandarísku fyrirtækjunum, sem beiti öllum brögðum til að hámarka arð og halda niðri kjörum og spara útgjöld vegna aðbúnaðar og öryggis.

 

 

Fyrirtækin gangi ákaflega hart fram í að fæla fólk frá stéttarfélögum og sameignlegri baráttu. Þetta hefur þó skánað nokkuð undanfarinn ár segja þeir, síðasta ár voru ekki nema 50 starfsmenn og trúnaðarmenn stéttarfélaganna skotnir, en fyrir 4 árum síðan voru það alltaf um 200 sem voru árlega skotnir. Bandarískir auðmenn óttist að þeir séu að missa tökin á ríkjum suður Ameríku og fjölgi hljóðlega herstöðvum sínum í mið Ameríku.

 

Fulltrúi samtaka skógarhöggsmanna upplýsti okkur um að það væru alltaf nokkrir sem slösuðust eða færust við störf, en það væru töluvert fleiri sem væru skotnir til bana af starfsmönnum eiturlyfjaflokkanna. En þeir skjóta á allt sem hreyfist, þegar þeir eru á flutningaferðum sínum um skógana.

 

Einnig er ömurlegt að hlusta á fulltrúa Asíu ríkjanna lýsa hvernig komið er fram við byggingarverkamenn sem hefðu verið að störfum í Dubai. Draumur olíufurstanna um að byggja upp stórborg í Dubai sem byði upp á allt sem ríka fólkið girntist, hefur kallað á tugþúsundir verkamanna víða að. Aðbúnaður þeirra hefur verið ömurlegur og mikið um alvarleg slys og dauðsföll og laun skelfilega lág. Nú er þetta fólk út á götu og á ekki fyrir fargjaldi heim til sín.

 

Nú blasir það við að það er ekki nóg að byggja glæsileg hús til þess að skapa samfélag, það þarf að byggja upp samfélag og hefði getað gerst ef þessum þúsundum manna hefði verið gert kleift að fá til sín fjölskyldur sínar og búa sér heimili í Dubai.

 

Það er ákaflega sárt fyrir íslending að sitja hér og hlusta á hvern manninn á fætur öðrum standa  hér í pontu og tala um gjaldþrot Íslands í sömu andrá og Dubai og segja að þar séu tvö sambærileg dæmi, sem nýtt verði í skólum um gjaldþrot nýfrjálshyggju og hinnar blindu auðhyggju. Stjórnvöld Íslands hafi sveigt landið lengra til hægri en nokkurt annað ríki hafi farið. Nú sé áður eitt ríkasta land í heimi gjaldþrota og íslenskir stjórnmálamenn hafni eftir sem áður að fara að alþjóðlegum samskiptareglum.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?