Fréttir frá 2009

12 21. 2009

Deilur hjá Símanum

Óánægja er þessa dagana meðal rafiðnaðarmanna sem starfa hjá fyrirtækjum Skipta (Símans) vegna þess að fyrirtækin tóku einhliða þá ákvörðun að fresta umsamdri 2,5% launahækkunum sem taka áttu gildi um áramót.

Þessi ákvörðun var ákveðin án samráðs við stéttarfélög rafiðnaðarmanna og kom þeim í opna skjöldu. Rafiðnaðarsambandið hefur undanfarna daga haldið fundi víðsvegar um landið með félagsmönnum sem starfa hjá fyrirtækjum Skipta. Þeir hafa verið fjölmennir og hafa um 300 rafiðnaðarmenn sótt fundina.

 

Fyrirtækin vísa til Stöðugleikasáttmála um frestun launahækkunar nú um áramótin, en rafiðnaðarmenn benda á móti að fyrirtækin hafi við gerð núgildandi samnings krafist sérsamninga vegna bágrar stöðu, þegar núgildandi kjarasamningur var gerður, sem eru með minni launahækkunum en voru í almennu samningunum. Á það hafi starfsmenn fallist við afgreiðslu samninganna, svo komast mætti hjá miklum uppsögnum eins og kom fram í framlögðum gögnum fyrirtækjanna.

 

Rafiðnaðarmenn benda á að launahækkanir sem komu til framkvæmda á þessu ári séu ekki í samningum rafiðnaðarmanna við fyrirtæki Skipta. Samkomulag náðist um að fresta þeim hækkunum sem voru í almennu samningunum og kom seinni hækkunin til framkvæmda 1. nóv. Það leiddi síðan til þess að launahækkun í þeim samningum sem koma áttu um áramót var frestað um 6 mánuði. Þessar forsendur eru ekki til staðar í sérsamningum rafiðnaðarmanna við fyrirtæki Skipta og telja þeir að fyrirtækin séu að velja eitt tiltekið atriði sem henti þeim úr Stöðugleikasáttmálanum.

 

Rafiðnaðarmenn benda á að þessi deila hafi ekkert með Stöðugleikasáttmála að gera eins og fyrirtækin haldi fram, heldur sé einfaldlega með þessu stefnt að broti á gildandi sérkjakjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins við fyrirtæki Skipta.. Rafiðnaðarmenn hafa lagt fram tillögur til sátta, en Skipti hafa hingað til hafnað viðræðum. Rafiðnaðarsambandið mun ásamt forsvarsmönmnum fyrirtækja Skipta fara yfir niðurstöðu félagsfundanna í dag.

 

Hér er ályktun sem samþykkt var einróma á öllum fundunum :

 

Rafiðnaðarmenn sem starfa hjá fyrirtækjum Skipta hafa á fjölmennum fundum mótmælt því harðlega að SA/fyrirtækin ætli einhliða að fresta samningsbundinni launahækkun sem átti að koma um áramótin um 6 mánuði til 1. júní 2010. Þessi ákvörðun hefur aldrei verið borin undir starfsmenn. Engar launahækkanir hafa komið til starfsmanna í 2 ár, auk þess að starfsmenn hafa tekið á sig umtalsverða kjararýrnun og fjölmargir fengið uppsagnir.

 

Í 3. gr. núgildandi kjarasamninga RSÍ vegna fyrirtækjanna, eru ákvæði um að laun eigi að hækka 1. jan. 2010 um 2,5%, auk 11 þús. kr. grunnlaunahækkunar hjá þeim lægst launuðu. Önnur ákvæði um launahækkanir eru ekki á samningstímanum.

 

Í almenna kjarasamningnum sem Stöðugleikasáttmáli er tengdur, voru 5,5% launatryggingarákvæði við upphaf, auk 21. þús. kr. hækkunar lágmarkslauna. Einnig komu 1. júní 2009 til framkvæmda 6.912/8.750 kr. hækkun á grunntöxtum og þ. 1. nóv. 2009 3,5% launatryggingarhækkun, auk 6.912/8.750 kr. hækkunar á grunntöxtum. í lokin er svo 2.5% launahækkun sem koma átti um áramót, en var frestað um 6. mán.

 

Við gerð kjarasamninga við fyrirtæki Skipta höfnuðu þau að kjarasamningurinn yrði eins og almennu samningarnir. Þau báru fyrir sig slaka stöðu fyrirtækjanna og vildu sérsamninga. Í 10. gr. samninganna eru ákvæði þess efnis að komi til þess að ASÍ og SA nái samkomulagi í byrjun febrúar 2009 um breytingu á almenna samning RSÍ skuli það sama gilda um þennan samning. Eins og fram kom við gerð kjarasamningsins var þetta sett inn til varnar því ef öllum samningum yrði sagt upp og forsendur samninganna gjörbreytast.

 

Það er eindregin skoðun rafiðnaðarmanna að það samkomulag, sem varð um Stöðugleikasáttmála og að skipta launahækkun sem koma átti 1. feb. þannig að seinni hluti hækkunar kom 1. nóv., leiddi til þess að sú launahækkun sem átti að um áramótin á almenna samningnum var frestað til 1. júní. Þetta á ekki við um samninga rafiðnaðarmanna við fyrirtæki Skipta. Umræddar hækkanir 2009 eru ekki í þeim samningum. En hér vilja fyrirtæki Skipta skyndilega skipta yfir í vísun í Stöðugleikasáttmála, ef svo er þá er grundvöllur til þess að ræða þær launahækkanir sem eru þess valdandi að þessi frestun varð að samkomulagi og hafa allir fundarmenn lýst yfir fullum vilja að ganga til þeirra viðræðna.

 

Það blasir við hversu ósanngjörn og illa grunduð þessi einhliða ákvörðun SA/fyrirtækja Skipta er. Rafiðnaðarmenn hafa sannanlega fallist á margskonar tilslakanir við gerð núgildandi samninga og hafa auk þess orðið að sætta sig við umtalsverða lækkun í launum á samningstímanum. Þeir hafa því þegar lagt fram hundruð milljóna króna á samningstímanum til þess að laga þá stöðu sem fyrirtækin voru í. Fyrirtækin hafa ekki staðið við það sem um var rætt, þar á meðal það atvinnuöryggi sem tilslakanir starfsmanna áttu að tryggja þeim.

 

Hér er verið að stofna til leiðinda á vinnustöðum fyrirtækja Skipta að óþörfu og á mjög ósanngjörnum forsendum. Rafiðnaðarmenn sætta sig ekki þessa einhliða ákvörðun og vísa allri ábyrgð á stjórnir fyrirtækjanna á grundvelli þeirra yfirlýsinga sem samningamenn fyrirtækjanna gáfu við gerð kjarasamninganna.

 

Rafiðnaðarmenn hvetja SA og fyrirtæki Skipta eindregið til þess að endurskoða afstöðu sína og lýsa sig tilbúna til viðræðna um lausn á þessari deilu.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?