Fréttir frá 2009

11 13. 2009

Ræða formanns RSÍ á trúnaðaðarmannaráðstefnu

Mér hefur verið tíðrætt um hversu löskuð íslensk umræðulist sé.

 

Hún einkennist á upphrópunum og órökstuddum klisjum sem menn hendi sín á milli, sjaldan fari fram upplýst umræða. Einstaklingar sem gefa sér forsendur byggða á óskhyggju fremur en raunsæi og búa þeim bakland í uppspunnum forsendum. Þeir mynda kröfuhópa sem setja saman óskalista, fara með þá í fjölmiðla og gera stéttarfélögin ábyrg fyrir því að óskirnar nái fram að ganga. Án þess að þeir séu bornir upp við okkur.

 

Því blákalt haldið fram að verið sé að kúga minnihlutann. Eru það ekki meirihlutaákvarðanir sem eiga að ráða! Er það ekki þannig sem lýðræðið virkar. En fjölmiðlar fara frekar að upphrópunum fárra athyglissjúkra einstaklinga og stilla okkur upp sem andstæðingum góðra málefna. Þeir virða að vettugi þann feril sem mál fara í stéttarfélögum og gera hiklaust kröfur um að við forsvarsmenn stéttarfélaga virðum að vettugi samþykktir okkar fólks og göngum gegn okkar samþykktum.

 

Í þessu sambandi má benda á framlengingu kjarasamninga á þessu ári og hvernig fjölmiðlar kynntu ákaft forsendur 10% , en sniðgengu niðurstöður 90% og þær forsendur sem sú niðurstaða var reist á. Það var klár félagsleg niðurstaða okkar, að af tveim slæmum kostum, þá hafi sá betri verið valinn. Úr þessu var ekkert gert í fjölmiðlum.

 

Forsenda niðurstöðu meirihlutans var að það væri út í hött að reikna með að við myndum strax ná nýjum kjarasamningum, þar sem væru kauphækkanir í gildandi kjarasamningum og 15% til viðbótar. Meirihlutinn var sammála um að við myndum ekki ná samningum fyrr en í fyrsta lagi á haustdögum eftir 3- 5 mánaða þref og niðurstaðan líklega svipuð og voru þegar í framlengingarkostum og við hefðum tapað andvirði launahækkunar í mun lengri tíma en frestunin var. Valið stæði á milli raunsæi og óskhyggju. Ef farin yrði leið óskhyggjunnar þá yrði niðurlæging okkar mikil í lok þessa ferlis.

 

Ef við lítum til athafna stjórnmálamanna þá hafa þeir vart komið á nokkurn stað hér á landi á undanförnum árum án þess að lofa stóriðjuveri og stillt sér til myndatöku upp á þúfu þar sem reisa eigi væntanlegt stóriðjuver. Við rafiðnaðarmenn höfum ítrekað bent á að ef reisa eigi stóriðjuver þá þurfi orkuver og svo raflínur á milli.

 

Ekki að við séum á móti því að það sé virkjað, en þar séu takmörk. Hvað varðar djúpboranir eftir háhita sé einfaldlega ekki til nein tæknileg þekking á því sviði og langt þar til hún verði til og alls óvíst að sú orka náist nokkurn tíma. Það vita allir að það er kjarnorkuofn í miðju jarðar, og alls ekki ólíklegt að langri framtíð takist okkur að virkja hann.

 

Ef við lítum á umræður um efnahagsmál þá byggjast þær að upphrópunum og rakalausum fullyrðingum. Það blasir við að íslenskt efnahagslíf hrundi til grunna vegna þess að því var ekki stjórnað rétt. Hrun okkar var meira og margfalt sársaukafyllra en hjá öllum öðrum. Hrunið var heimasmíðað.

 

Skattar voru lækkaðir þegar þenslan var í hæstu hæðum og gengið út frá að það væru þær aðstæður sem þjóðarbúið byggi við til framtíðar. Hellt var olíu og þenslubálið frekar en að leggja í varasjóð, til þess að takast á við fyrirsjáanlega niðursveiflu. Verkalýðshreyfingin benti á stjórnvöld byggðu sína útreikninga á röngum forsendum. Þegar eðlilegt ástand kæmist á, myndu skatttekjur vitanlega lækka og myndu ekki duga til rekstur á því þjóðfélagi sem við vildum búa í.

 

Það eru mörg grundvallaratriði sem munu breytast á næstu árum. Framleiðsla á orku með jarðefnum á að minnka um 20%. Það á einnig að minnka orkunotkun í Evrópu um 20%. Það verða settir á kolefnaskattar, það mun breyta mjög mörgu í daglegu lífi og viðhorfum.

 

Til þess að framleiða það kaffi sem þarf til þess að búa til einn kaffibolla kallar á 14 lítra af vatni. Vatn verður verðmætasta efni heimsins innan skamms.  Við umgöngumst jörðina eins og við eigum aðra til vara.

 

Einnig má nefna flutningskostnað. Við erum á 100 árum búinn að eyða orku, sem tók jörðina 200 millj. ár að framleiða. Í dag er óunnin fiskur sendur frystur frá Evrópu í stórum stíl til Kína þar sem hann er affrystur og unnin. Og svo frystur aftur og sendur til Evrópu þar sem hann er svo affrystur og fullunninn og svo er fiskurinn enn einu sinni frystur og sendur um alla Evrópu þar á meðal til þeirra staða sem hann var upphaflega veiddur.

 

Íslenskur vinnumarkaður einkennist af velmenntuðu fólki, hann er velskipulagður, með gríðarlega öflugt starfsmenntakerfi, er sveigjanlegur og er þar afleiðandi fljótur að tileinka sér nýungar. Við getum byggt upp enn öflugri hátækniiðnað. Iðnað sem flytur lítið inn en mikið út.Iðnaður sem byggist í raun á því að geta gert aðeins betur enn hinir og verið aðeins á undan. Verðmætasköpun hins velmenntaða íslenska vinnumarkaðar og hæfilegrar nýtingar orkunnar. Uppbyggingu rafbílaframleiðslu og minnkun jarðefnanotkunar.

 

Til lengri tíma verður að líta til þess að hér verði gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo meðalatvinnuleysi íslensks vinnumarkaðar fari niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári.

 

Það varð siðrof í samfélaginu. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist og fylgdi ekki eftir þeim leikreglur sem áttu að verja okkur. Ekki var tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu.Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafa um endalausa velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki.

 

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

 

Nú er tækifæri til þess að við tökum upp ný vinnubrögð og setjum fram ný viðhorf? Um þetta ætlum við að ræða á morgun og erum búin að fá þessum efnum. Pál Skúlason háskólarektor og Stefán Einar Stefánsson í Háskólanum í Reykjavík.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?