Fréttir frá 2009

11 15. 2009

Umfjöllun um fjölmiðlaumræðu á Trúnaðarmannaráðstefnunni

Á trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins var tekið til umfjöllunar fréttamat fjölmiðla og efnistök nokkurra spjallþáttastjórnenda eins og t.d. Kastljóss og Bylgjunnar.

 

Þar kom m.a. fram að áberandi gestir þar eru örfáir einstaklingar, sem gefa sig út fyrir að vera talsmenn hinna „réttu“ skoðana verkalýðshreyfingarinnar. Þessir einstaklingar eru í stjórn VR, og formenn Verkalýðsfélags Akranes og Húsavíkur. Áberandi er að þessir einstaklingar taka lítinn þátt í umræðu og stefnumótandi starfi í heildarsamtökum launamanna, þó svo þeir séu kjörnir til þess. Einnig eru kallaðir til einstaklingar sem þekktir eru af andstöðu sinni gegn verkalýðshreyfingunni og er ekki félagsmenn og þeir fengnir til þess að úthúða starfi stéttarfélaganna.

 

Þegar tillögur þessara einstaklinga hafa fengið umfjöllun innan verkalýðshreyfingarinnar virðist einungis innan við 10% vera sömu skoðunar og þeir. En þeir halda því hiklaust fram að þeir séu beittir ofbeldi sakir þess að ekki sé farið að þeirra tillögum!! Því er haldið fram að þar fari formaður Rafiðnaðarsambandsins fremstur í flokki. Hann sé einangraður frá sínum félagsmönnum og búi í fílabeinsturni, en þeir séu aftur á móti í góðu sambandi við félagsmennina.

 

Í þessu sambandi má benda á framlengingu kjarasamninga á þessu ári og hvernig fjölmiðlar sniðgengu niðurstöður hins mikla meirihluta innan verkalýðshreyfingarinnar og þær forsendur sem sú niðurstaða var reist á. Það voru haldnir fjölmargir félagsfundir innan RSÍ, þar sem farið var yfir stöðuna og valinn annar af tveim slæmum kostum. Formönnum aðildarfélaga RSÍ ásamt formanni sambandsins var falið að kynna niðurstöðuna innan ASÍ.

 

Það er óþolandi að forsvarsmenn annarra stéttarfélaga séu að lítilsvirða lýðræðislega fengnar niðurstöðu innan RSÍ og veitast með rakalausum dylgjum að forsvarsmönnum sambandsins. Með því eru þeir að skipta sér að innri málum Rafiðnaðarsambandsins og ráðast ekki einungis að formanni sambandsins, heldur öllum þeim rafiðnaðarmönnum sem koma að virku og öflugu félagsstarfi.

 

Það er mikil félagsleg virkni innan RSÍ og fráleitt að halda því fram að formaður sambandsins sé einangraður frá félagsmönnum og þeir séu viljalaus verkfæri í höndum formanns síns. Rafiðnaðarmenn áskilja sér allan rétt til þess að ákvarða sjálfir um öll innri mál sambandsins og aðildarfélaga þess og velja sér forystu. Trúnaðarmenn RSÍ frábiðja sér afskipti og óábyrg yfirboð sem þessir einstaklingar viðhafa.

 

Umfjöllun fjölmiðla um þessi mál hafa einkennst af upphrópunum og órökstuddum klisjum ásamt því að sjaldan fer þar fram upplýst umræða. Niðurstöður meirihlutans eru sniðgegnar, en ítrekað reynt að stilla upp leðjuslag þar sem einungis eru til umfjöllunar fráleitar skoðanir tiltekinna einstaklinga. Forsendum byggðum á óskhyggju fremur en raunsæi og er búið bakland í óraunsæjum spuna. Einstaklingum sem eru einangraðir innan verkalýðshreyfingarinnar og þekktir þar af því einu að bera uppspunnar dylgjur á annað fólk, er það sem fjölmiðlar velja þegar mál innan verkalýðshreyfingarinnar eru til umfjöllunar.

 

Því blákalt haldið fram að verið sé að kúga minnihlutann. Eru það ekki meirihlutaákvarðanir sem eiga að ráða? Er það ekki þannig sem lýðræðið virkar? En fjölmiðlar fara frekar að upphrópunum fárra og stilla fjöldanum upp sem andstæðingum góðra málefna. Fjölmiðlarnir virða að vettugi þann feril sem mál fara í stéttarfélögum og gera kröfur um að forsvarsmenn stéttarfélaga fari ekki að samþykktum félagsmanna.

 

Hagsmunum hverra er verið að gæta? Augljóst er að tilgangur þessara fjölmiðlamanna er að rífa niður verkalýðshreyfinguna. Á hverra vegum eru þessir fjölmiðlamenn og hverjir eru kostunarmenn þeirra? Spurðu 100 trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna.

 

Verkalýðshreyfingin er gríðarlega öflug og hefur aldrei verið eins kröftug. Þar má t.d. benda á að á það sem af er þessu ári er búið að veita á annað hundrað milljónum krónum í styrki til félagsmanna umfram það sem veitt var á sama tíma á síðasta ári. Aðsókn í fagtengd námskeið á vegum Rafiðnaðarskólans hafa aldrei verið jafnmikil, sama á við um orlofskerfi sambandsins, en hvort tveggja er það öflugasta sem þekkist í verkalýðshreyfingunni. Lögfræðileg aðstoð við félagsmenn hefur aldrei verið jafnmikil og stuðningur starfsendurhæfingar mikil ásamt því að fjölmörg heimili rafiðnaðarmanna hafa fengið fjárhagslegar leiðbeiningar og aðstoð.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?