Fréttir frá 2013

11 21. 2013

Blekkingar Samtaka atvinnulífsins

SA logoÚtspil Samtaka atvinnulífsins í formi auglýsingar þar sem fram kemur að launahækkanir einar og sér valdi allri verðbólgu hér í landi er hreint út sagt ótrúlegt! Að halda því fram að gengi krónunnar hafi fallið sökum launahækkana í efnahagshruninu árið 2008 - 2009 en þá féll krónan um 50% og ársverðbólga náði hæsta gildi þessarar aldar eða um 18,6%.

Það er því langt frá sannleikanum að segja að launahækkanir einar og sér valdi allri verðbólgu, það vita forsvarsmenn SA eða ættu einfaldlega að geta séð það með því einu að opna augun og sjá línurit sem þeir birta sjálfir í auglýsingunni. Þar sést greinilega að verðbólga eykst verulega (væntanlega á árunum 2008-9) og laun hækka í kjölfarið til þess að halda í við verðlag.

Kaupmáttur launa lækkaði verulega og leituðu aðilar leiða til þess að auka kaupmátt launa til þess að ná til baka hluta þess kaupmáttar sem hvarf í hruninu.

Rangfærslur sem þessar eru hreint út sagt ótrúlegar og eru langt frá því að vera gott innlegg í kjaraviðræður sem eru skammt á veg komnar. Launahækkun upp á 2% er ekki inni í myndinni.

Samkvæmt launakönnun sem RSÍ lét gera fyrir skömmu hækkuðu dagvinnulaun okkar félagsmanna um 3,9% en þar af eru 3,25 kjarasamningsbundnar og því ljóst að launaskrið t.d. vegna starfsaldurshækkana og aukinnar menntunar sem skilgreindar eru í kjarasamningum útskýra þetta skrið. Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um ríflega 5,9% eða 2% umfram rafiðnaðarmenn. 

Hverjir fá þær hækkanir sem launavísitalan sýnir? Ef við skoðum gögn Hagstofu Íslands þar sem launaþróun nokkurra starfstétta er greind þá sýna þær að laun sérfræðinga og stjórnenda hafa hækkað umfram iðnaðarmenn almennt.

Væri ekki rétt að Samtök atvinnulífsins beindu því til sinna aðildarfélaga að hækka ekki verðskrár sínar til þess að draga úr verðbólgu! Verðskrárhækkanir valda verðbólgu, eðli máls samkvæmt. Ef launþegar eiga að sætta sig við minni launahækkanir þá þurfa Samtök atvinnulífs og aðildarfélög einnig að sýna lit í þeim efnum!

Samtök atvinnulífsins þurfa að horfa í eigin barm og taka til þar áður en þeir hlaupa til og benda á aðra! Þetta þarf ríkið jafnframt að gera og draga úr gjaldskrár hækkunum sínum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?