Fréttir frá 2015

11 24. 2015

Á hverju strandar kjaradeila í ISAL, Straumsvík?

rafidnadarsambandidÁ hverju strandar kjaradeila í ISAL, Straumsvík?

Í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að ISAL sé að greiða allt að 48% hærri laun en gerist á almennum vinnumarkaði. Þar er talað um dagvinnu og vaktavinnu. Laun hjá fyrirtækinu séu svo góð að verkalýðsfélögin séu í raun hreinar frekjur að krefjast hærri launa. Það er þó rétt að taka fram að samanburðurinn gefur ekki fullkomlega rétta mynd þar sem vaktavinna starfsmanna ISAL er allsráðandi (langstærstur hluti verkafólks er í vaktavinnu) en á almennum vinnumarkaði er vaktavinna í miklum minnihluta (í raun hverfandi). 

Deilan snýst nákvæmlega ekkert um launin í dag!

Deilan snýst um að tryggja starfsmönnum ISAL vinnu á þessum launum. ISAL krefst þess að geta sagt fastráðnum starfsmönnum upp og ráðið inn verktaka dag frá degi til þess að sinna verkefnum eins og öryggisgæslu í hliði, hafnarvinnu eins og löndun úr skipum sem og vinnu í mötuneyti fyrirtækisins. Ekki nóg með það að þeir vilji losa sig við þessa starfsmenn heldur þá vilja þeir einmitt losna undan því að þurfa að greiða þessi laun sem þeir vísa til. Fyrirtækið vill sem sagt losa sig við starfsmenn og greiða verktökunum að minnsta kosti 48% lægri laun en þeir gera í dag!

Ekki nóg með það að þeir myndu vilja greiða 48% lægri laun (sem væru þá svokölluð "markaðslaun" verkafólks) heldur þá vill fyrirtækið að miðað verði við lágmarkslaun í landinu fyrir þessi störf en eflaust myndi fyrirtækið vilja að undirverktakar greiddu enn lægri laun en lágmarkslaun enda myndi það ekki koma ISAL mikið við þó svo að undirverktakar greiddu lægri laun því ábyrgðin væri ekki ISAL, ábyrgðin yrði undirverktakans sem væri með fólkið í vinnu.

Um þetta snýst málið, ISAL vill EKKI þurfa að greiða þessi laun sem kjarasamningur Verkalýðsfélaganna við fyrirtækið kveður á um! ISAL vill losna undan þeim kvöðum sem því fylgir að hafa fólk í vinnu og setja þær kvaðir á undirverktaka. Fyrirtækið krefst þess að breyta ákvæði kjarasamnings sem hefur verið í gildi í áratugi, þar strandar deilan vegna þeirra kröfu.

Starfsmenn ISAL fara ekki fram á meiri launahækkanir en almennt hefur verið samið um á íslenskum vinnumarkaði heldur hafa starfsmenn í raun gefið fyrirtækinu afslátt af þeim launahækkunum til þess að geta gengið að kjarasamningi. Fyrirtækinu hefur verið boðinn lengri samningur með hóflegum launahækkunum til þess að komast í gegnum brimskaflinn. Fyrirtækinu hefur verið boðið upp á að reyna að fá starfsfólk með sér í lið til þess að takast á við erfiðleika fyrirtækisins. En hvað hefur fyrirtækið gert til þess að komast áfram? Fyrirtækið hefur á engan hátt reynt að fá almennt starfsfólk með sér í lið en það vita það allir að mesti auður fyrirtækja er starfsfólk þeirra! Fyrirtækið hefur hins vegar gengið frá kjarasamningi við stjórnendur ISAL sem og undirverktaka sem starfa fyrir ISAL.

Já, þú last rétt, við undirverktaka ISAL! Eins og fram kom í fréttum í gær þá eru hátt í 200 fyrirtæki í Hafnarfirði sem eiga mest allt undir því að fyrirtækið sé starfandi í Straumsvík. Þetta þýðir að ISAL getur og hefur nýtt fyrirtæki utan svæðis, verktaka, til vinnu. Hins vegar þurfa verktakar að greiða sambærileg laun og starfsmenn ISAL njóta. Þetta þekkist í stóriðjunni hér á landi. Síðastliðið sumar var deila á Reyðarfirði þar sem samningar náðust um að undirverktakar skuli greiða sambærileg laun.

Framkoma fyrirtækisins er til skammar! Í stað þess að leita lausna hóta þeir starfsmönnum öllu illu. Þetta fyrirtæki ætlar sér ekki að semja því þau ætla sér að fá allt það sem fyrirtækið vill. Sé fyrirtækinu umhugað um starfsmenn sína og vilji starfa áfram hér á landi þá ættu stjórnendur að fá starfsfólk með sér í að bæta stöðuna og mögulega ná að ná aukinni framleiðni með samstilltum vinnubrögðum!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?