Fréttir frá 2017

12 31. 2017

Nýárspistill formanns RSÍ

rafidnadarsambandid2Nú þegar árið 2017 er á enda er gott tilefni til þess að rýna farinn veg og huga að nýju ári sem framundan er. Á liðnum árum hefur okkur tekist að rétta kjör okkar félagsmanna aðeins við en mikil þörf var á því að lyfta þeim upp eftir Hrun-árin. Kaupmáttur launa hafði lækkað það mikið. Á síðastu tveimur árum hefur okkur tekist að auka kaupmátt launa heilt yfir samfélagið og er það tilkomið vegna lágrar verðbólgu og launahækkana. 

Við erum að upplifa lengsta samfellda tímabil lágrar verðbólgu hér á landi sem grunnur var lagður að á árinu 2014 þegar verkalýðsfélög innan ASÍ ruddu brautina gegn Ríki, sveitarfélögum sem og fyrirtækjum en um langt árabil höfðu þessir aðilar hækkað gjaldskrár sínar um hver áramót til þess að bæta upp fyrir verðbólgu liðins tíma. Sú hækkun gerði það að verkum að þeir bjuggu til nýjan grunn fyrir áframhaldandi verðbólgu. Vítahringur var það klárlega og ekki var það átakalaust að komast út úr þessum vítahring.

Nú um áramótin munu landsmenn sjá hækkanir á ýmsum þáttum en til að mynda ætlar Ríkið að taka enn stærri skerf af eldsneyti í formi hærri gjalda. Þessi hækkun getur kynt undir verðbólgu auk þess sem hækkun á fasteignaverði undanfarinna mánaða og ára heldur verðbólgu hærri en hún þyrfti að vera.

Það verður spennandi að fylgjast með nýrri ríkisstjórn á komandi mánuðum en afar brýnt er að Alþingi taki á því með hvaða hætti Hagstofa Íslands mælir verðbólgu. Það er kominn tími til þess að gerð verði breyting á því með hvaða hætti fasteignaverð reiknast inn í verðbólgu hvers tíma. Húsnæðisliðurinn ætti ekki að hafa jafn mikið ef nokkurt vægi í vísitölu neysluverðs. Þarna getur Alþingi gripið inn í og gert úrbætur á.

Það stefnir í að árið 2018 verði að mörgu leyti gott ár. Það vekur vissulega áhyggjur hversu mikill hraði er á vinnumarkaði og gera má ráð fyrir að það haldi ekki endalaust áfram og það fari að hægja á á næstu mánuðum. Ekki þykir líklegt að næsti skellur verði eins harkalegur og fyrir 10 árum síðan en nauðsynlegt er að fara varlega í þeim efnum og ljóst er að almenningur hefur verið skynsamari í fjárfestingum og skuldsetningu en á "partý-árunum" fyrir Hrun. Nauðsynlegt er að vera undir það búinn að það kreppi eitthvað að. 

Kjarasamningar munu losna á árinu 2018. Aðildarfélög innan ASÍ eru með endurskoðunarákvæði í kjarasamningum sem við getum nýtt okkur í lok febrúar á nýju ári og ljóst má þykja að forsendur kjarasamninganna eru brostnar. Kjararáð hefur margítrekað úrskurðað um leiðréttingar launa æðstu embætta ríkisins og hefur þar með slegið nýjan takt í samfélagið. Þegar rýnt er í þær hækkanir þá finna fulltrúar kjararáðs sér heppilegan tímapunkt til að sýna fram á mikilvægi leiðréttingar og það sé bara eðlilegt að tekið verði á þessu. 

Ljóst má þykja að rafiðnaðarmenn eru afar ósáttir við úrskurði kjararáðs en taka þó að sjálfsögðu undir að nú er kominn tími á leiðréttingar á okkar launum. Þrátt fyrir að kaupmáttur hafi aukist á undanförnum árum þá hafa launin dregist aftur úr þegar horft er til lengri tíma. 

Til þess að kjarasamningum verði sagt upp í lok febrúar þá þurfa aðstæður að vera óbreyttar. Verði hins vegar gerð breyting á úrskurðum kjararáðs þá getur svo farið að kjarasamningar gildi út árið 2018 en renni þá úr gildi um áramótin 2018/2019. Forsendunefnd ASÍ hefur það í hendi sér að úrskurða um hvort forsendur haldi eða ekki. 

Ég vona að nýtt ár muni reynast þjóðinni vel á heildina litið og verði gjöfult og þakka ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?