ASI VerdlagseftirlitVerðlagseftirlit ASÍ kannaði á þriðjudaginn matvöruverð í 15 minni matvöruverslunum á landsbyggðinni. Í ljós kom að í um helmingi tilfella var yfir 80% munur á hæsta og lægsta verði á þeim vörum sem verð var kannað á. Á 56 vörutegundum af þeim 103 sem kannaðar voru, var 60-140% munur á hæsta og lægsta verði og yfir 140% verðmunur á 12 vörutegundum. Mikill verðmunur var á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum. Á mörgum þeim stöðum á landinu sem verðkönnunin fór fram eru langar vegalengdir í næstu verslun og reiða margir heimamenn sig því á þær.

Sem dæmi um mikinn verðmun á milli verslana í könnuninni má nefna að 106% eða 1.373 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af brauðosti og 103% eða 1.183 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheeriosi. Á ungnautakjöti var 100% eða 1.597 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði, á smjöri var um 50% verðmunur og um 60-70% munur var á verði á mismunandi brauðtegundum. Þá var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði á þvottaefni eða 156% og 80% á kaffipúðum. 

Sem dæmi um verðmun innan vöruflokka var í flestum tilfellum um 80-100% munur á hæsta og lægsta verði á kjöti og fiski, yfirleitt um eða yfir 100% verðmunur á dósamat og þurrvöru og oft um 80-100% munur á snakki og gosi og annarri drykkjarvöru. Þrátt fyrir mikinn verðmun í öllum vöruflokkum var munurinn á verði á grænmeti hvað mestur, oft 2-300%. Miðað við þennan mikla verðmun í öllum vöruflokkum er ljóst að verðlag í verslununum getur haft mikil áhrif á heimili sem reiða sig á verslanirnar.  

Vöruúrvalið í verslunum var mjög misjafnt. Mest var úrvalið í Skagfirðingabúð en þar fengust 94 vörur af 103 en minnst var úrvalið í Versluninni Ásbyrgi þar sem einungis 24 vörur fengust. Í nokkrum verslunum var mikið um að vörur væru ekki verðmerktar.

Í verðtöflunni hér að neðan má sjá verð á öllum vörum í könnuninni. Verðtaflan er gagnvirk. Ef ýtt er á nafnið á vöruflokknum kemur fellilisti þar sem skipta má um vöruflokk. Ef ýtt er á vöruheitin raðast verslanirnar eftir því hver er með hæsta og lægsta verðið. E merkir að varan hafi ekki verið til en em merkir að varan hafi ekki verið verðmerkt.

 

 

 

Þrjár verslanir neituðu þátttöku í könnuninni, Melabúðin, Kassinn Ólafsvík og Kostur í Njarðvík. Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem eru í eigu einstaklinga til verslana sem eru hluti af stærri verslanakeðjum.

Um könnunina: 
Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Í könnuninni var hilluverð á 103 vöru skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. 

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Kr. Þorlákshöfn, Kjarval Hellu, Fjölval Patreksfirði, Hjá Jóhönnu Tálknafirði, Skerjakollu Kópaskeri, Urð Raufarhöfn, Versluninni Ásbyrgi, Dalakofanum Laugum, Hlíðakaup Sauðarkróki, , Skagfirðingabúð Sauðárkróki (KS), Jónsabúð Grenivík, Kauptúni Vopnafirði, Hraðbúðinni Hellissandi, Kassanum Ólafsvík, Kosti Reykjanesbæ og Melabúðinni.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

asi rautt

Reykjavík 17. september 2020

Icelandair, Flugfreyjufélags Íslands, ASÍ og SA sendu í dag frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að aðilar séu sammála um að fara eftir leikreglum og lögum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Með yfirlýsingunni gangast Icelandair og SA við því að framganga Icelandair sl. sumar, þar sem flugfreyjum og flugþjónum var sagt upp störfum í miðri kjaradeilu, hafi brotið í bága við samskiptareglur á vinnumarkaði. 

Jafnframt kemur fram að Icelandair telji nauðsynlegt að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks sem tryggi frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum. Þá skuldbinda aðilar sig til að leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín í milli og munu Flugfreyjufélag Íslands og ASÍ falla frá því að draga Icelandair fyrir Félagsdóm vegna brota á 4., 11. og 19.gr. laga nr. 80/1938.

Drífa Snædal, forseti ASÍ:
„Í nýafstaðinni kjaradeilu beitti Icelandair, með stuðningi SA, brögðum sem hafa ekki sést á Íslandi áratugum saman en þekkjast víða erlendis og hafa það að markmiði að brjóta niður stéttarfélög og samstöðu launafólks. Með þessari yfirlýsingu er gengist við því að slíkar aðferðir eigi sér ekki pláss á íslenskum vinnumarkaði. Ég fagna því að hér hafi náðst niðurstaða aðila í milli án þess að fara fyrir dóm. Það er nauðsynlegt fyrir alla  að farið sé eftir þeim formlegu og óformlegu leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.“ 

 

Yfirlýsingin er svohljóðandi: 

Sameiginleg yfirlýsing Icelandair Group, Samtaka atvinnulífsins, Flugfreyjufélags Íslands og Alþýðusamband Íslands

Aðilar eru sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í erfiðum og langdregnum kjaradeilum eigi að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðar og sem koma fram í lögum nr. 80/1938. 

Þau viðbrögð Icelandair, með stuðningi SA, þegar félagið taldi vonlaust að ná árangri í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands, að segja upp öllum starfandi flugfreyjum og flugþjónum þann 17.7.2020  eru hörmuð enda ekki í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa. Icelandair telur nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns sem tryggir frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum.

Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín í milli. 

Með yfirlýsingu þessari eru aðilar sammála um að með henni ljúki öllum deilum milli þeirra um þá atburði sem áttu sér stað í samskiptum þeirra þann 17.7 2020 og mun hvorugur aðila gera kröfur á hinn vegna þeirra. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands 
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands

 

rafidnadarsambandid rautt

Kæru félagar

Minnum á viðhorfskönnun um forsendur kjarasamninga og vonumst eftir þátttöku þinni.

Til að svara könnun (smella hér)

Kjarasamningar flestra á almennum vinnumarkaði gilda til 1. nóvember 2022. Áframhaldandi gildi þeirra hvílir á þremur forsendum:

 

· Stýrivextir hafi lækkað frá apríl 2019 – FORSENDUR HAFA STAÐIST

· Kaupmáttaraukning hafi verið frá apríl 2019 – FORSENDUR HAFA STAÐIST

· Stjórnvöld standa við yfirlýsingu sína í húsnæðismálum, félagslegum undirboðum, févíti fyrir launaþjófnað, lífeyrismálum, skattamálum, fæðingarorlofi, barnabótum, verðtryggingamálum o.fl. – UNNIÐ ER MEÐ STJÓRNVÖLDUM AÐ ÞVÍ AÐ UPPFYLLA FORSENDURNAR EN ÁKVÆÐI UM SKREF TIL AFNÁMS VERÐTRYGGINGAR HAFA EKKI STAÐIST

 

Ef samningum er sagt upp falla úr gildi launahækkanir og setjast þarf við  samningaborðið að nýju með atvinnurekendum. Sama staða verður uppi gagnvart stjórnvöldum.

Að gefnum þessum forsendum – telur þú að segja eigi upp kjarasamningum ef tækifæri til þess gefst?

 

* Já, segja samningum upp.

* Nei, ekki segja samningum upp.

* Veit ekki, vil ekki svara

Frestur til að svara er til sunnudagsins 20. september. 

ASI BSRB BHM

Sérfræðingahópur um mat á efnahagslegum áhrifum COVID-kreppunnar tekur til starfa 

Heildarsamtök launafólks, ASÍ, BSRB og BHM, hafa skipað starfshóp sem falið er að leggja mat á efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar með áherslu á áhrifin á vinnumarkaðinn. Hópurinn mun gera tillögur um aðgerðir til að fyrirbyggja langtímaskaða af efnahagskreppunni og tryggja öfluga viðspyrnu þegar heimsfaraldurinn líður undir lok. Hópnum er ætlað að horfa sérstaklega til viðkvæmra og jaðarsettra hópa og fjalla um að hvaða leyti aðgerðir geta haft áhrif á jöfnuð og félagslegt réttlæti. Hópurinn tekur þegar til starfa.  

Í sérfræðingahópnum eiga sæti: 

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, formaður  
Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í viðskiptafræði og fulltrúi í fjármálaráði 
Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR  
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB 
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði  
Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM  
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði  
Ásgeir Sverrisson, sérfræðingur ASÍ, mun starfa með hópnum 

Drífa Snædal, forseti ASÍ: 
„Á krepputímum eins og þessum eru teknar ákvarðanir í efnahagsmálum sem geta haft áhrif á samfélagið til langs tíma. Slíkar ákvarðanir verður að taka út frá almannahag, ekki sérhagsmunum. Hópurinn mun leggja mat á aðgerðir stjórnvalda og gera tillögur um leiðir til að tryggja að efnahagskreppan verði ekki dýpri og langvinnari en hún þarf að vera.“  

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB: 
„Covid-19 hefur sýnt svart á hvítu fram á mikilvægi traustra opinberra innviða. Við vinnum okkur ekki út úr kreppunni með því að veikja innviðina, heldur þvert á móti með því að styrkja þá. Með því að greina áhrif kreppunnar og aðgerða gegn henni á jöfnuð og félagslegt réttlæti má koma í veg fyrir að teknar séu stefnumótandi ákvarðanir sem ýta undir ójöfnuð og skara eld að köku hinna fáu.“  

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM:  
„Stefnumótun um leiðir út úr kreppunni verður að byggja á traustum grunni. Með því að leiða saman sérþekkingu fræðafólks og reynslu og þekkingu úr starfi verkalýðshreyfingarinnar er hægt að stuðla að upplýstri ákvarðanatöku og veita stjórnvöldum virkt aðhald.“

 

augl logfraedi

Helstu verkefni eru að veita ráðgjöf varðandi túlkun ráðningarsamninga, kjarasamninga og laga. Aðkoma að starfshópum á vegum iðnaðarmannasamfélagsins, þátttaka í kjaraviðræðum, umsagnir og málarekstur þegar svo ber undir.

Gerð er krafa um að umsækjendur hafi lokið meistaraprófi í lögfræði og æskilegt er að hafa málflutningsréttindi. Þekking og reynsla af vinnumarkaðsmálum er kostur.

Um er að ræða nýtt og spennandi starf í krefjandi starfsumhverfi.

Lögfræðingur mun heyra undir skrifstofustjóra 2F sem er þjónustuskrifstofa iðnaðarmannasamfélagsins að Stórhöfða 31.

Að 2F Húsi Fagfélaganna standa:

Byggiðn - Félag byggingamanna

Félag iðn- og tæknigreina (FIT)

Matvæla- og veitingafélag Íslands (MATVÍS)

Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ)

Samiðn - Samband iðnfélaga

Nánari upplýsingar um starfið veitir Pálmi Finnbogason (palmi@2f.is).

Umsóknir sendist á netfangið logmadur@2f.is

Umsóknarfrestur er til 22. september. 

 

VerkfallshnefiÍ dag var Samtökum atvinnulífsins sem og fulltrúum Norðuráls afhent með formlegum hætti verkfallsboðun félagsmanna í Félagi íslenskra rafvirkja og Félagi tæknifólks í rafiðnaði. Félagsmenn félaganna samþykktu með meirihluta greiddra atkvæða að boðað yrði til allsherjarvinnustöðvunar frá kl. 12:00 þann 8. desember næstkomandi. 

Það er ljóst að gríðarlega mikilvægt verður að ná samningum fyrir þann tíma en takist það ekki þá hefst niðurkeyrsla verksmiðjunnar í byrjun desember. Niðurkeyrsla mun hefjast þann 1. desember vegna verkfallsboðunar VR og Vlfa en viku síðar bætist verkfallsboðun aðildarfélaga RSÍ við í baráttuna. Þess ber að geta að samkvæmt ákvæði kjarasamningsins þá ber að taka eitt ker úr rekstri á hverjum sólarhring fyrstu þrjá mánuðina en síðan 2 ker á sólarhring næstu þrjá mánuði. Þetta ferli mun haldast gangandi þar til samningsaðilar hafa allir náð samkomulagi.

 Niðurstöður atkvæðagreiðslna voru eftirfarandi:

 

Félag íslenskra rafvirkja:

Á kjörskrá voru 26 og greiddu 17 atkvæði eða 65,4%.

Já sögðu 9 eða 52,9%

Nei sögðu 8 eða 47,1%

Boðun verkfalls telst því samþykkt

 

Félag tæknifólks í rafiðnaði:

Á kjörskrá voru 5 og greiddu 3 atkvæði eða 66,7%.

Já sögðu 2 eða 66,7%

Nei sögðu 1 eða 33,3%

Boðun verkfalls telst því samþykkt

rafidnadarsambandid rautt

Vegna forfalla er hús nr 1 á Skógarnesi laust um næstu helgi, fyrstur kemur fyrstur fær

rafidnadarsambandid rautt

Vegna forfalla er stóra húsið á Skógarnesi laust helgina 4.-7. september.  Fyrstur kemur fyrstur fær.

ASI Verdlagseftirlit

Lækkun á virðisaukaskatti á tíðarvörum að hluta til skilað sér í lægra vöruverði 
Verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á tíðarvörum sýnir að lækkun virðisaukaskatts úr 24% í 11% sem tók gildi 1. september 2019 hefur á um einu ári skilað sér að einhverju leyti til neytenda, þó misvel eftir verslunum. Mest hafa tíðavörur lækkað í Iceland, um 17,6% og næst mest í Krambúðinni um 7,5%. Minnst hafa þær lækkað í Bónus, um 1% og næst minnst í Krónunni, 3,5% á meðan verð stóð í stað í 10-11. Verðkönnunin sýnir einungis breytingar á verði yfir tíma í verslunum en tekur ekki tillit til þess hvar lægsta verðið er að finna.   

Þann 1. september 2019 tóku í gildi ný lög sem kveða á um að tíðarvörur ásamt öllum tegundum getnaðarvarna skuli vera í neðra þrepi virðisaukaskatts, 11% í stað efra þrepsins, 24%. Breytingin ætti að öllu óbreyttu að skila 10,5% lækkun á verði til neytenda. Markmiðið með lögunum var að stuðla að bættri lýðheilsu og auka jafnræði, lækka kostnað á nauðsynlegum hreinlætisvörum kvenna og jafna aðstöðumun notenda mismunandi forma getnaðarvarna. Lækkun á virðisaukaskatti á tíðavörum, oft kallaður bleiki skatturinn eða túrskatturinn, er nú jafn hár og virðisaukaskattur sem lagður er á aðrar hreinlætis- og nauðsynjavörur eins og bleyjur, matvöru, heitt vatn og rafmagn. 

Mestar verðlækkanir á tíðavörum í Iceland en minnstar í Bónus 
Verðlagseftirlit ASÍ safnaði gögnum um verðbreytingar á tíðavörum í matvöruverslunum í lok ágústs 2019, áður en lögin tóku gildi og svo aftur um miðbik ágústst 2020, þegar rétt innan við ár var liðið frá því að breytingarnar tóku gildi. Á tímabilinu lækkaði verð á tíðarvörum í öllum verslunum nema í 10-11. Mest lækkaði verð á tíðavörum í Iceland, 17,6% sem er í takt við verðlækkanir sem sést hafa í versluninni í öðrum könnunum verðlagseftirlitsins. 

Næst mest lækkaði verð á tíðavörum í Krambúðinni, 7,5% og þá lækkaði verð á tíðarvörum um 6,2% í Hagkaupum, 5,4% í Nettó og 4,5% Í Fjarðarkaupum. Minnst lækkuðu tíðavörur í Bónus, um 1% og næst minnst í Krónunni 2,1%. Engin breyting var á verði á tíðavörum í 10-11 á tímabilinu. 

 

Veiking krónu vegur upp á móti lækkun virðisaukaskatts 
Vert er að taka fram að frá 30. ágúst 2019- 14. ágúst 2020 veiktist krónan gagnvart helstu gjaldmiðlum en gengisveiking er einn af þeim þáttum sem getur haft áhrif á verð innfluttra vara. Á tímabilinu sem um ræðir veiktist krónan um 16,3% gagnvart Evru, um 8,8% gagnvart dollar og um 17% gagnvart breska pundinu.  

Um könnunina
Samanburðurinn nær til verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ á tíðavörum í matvöruverslunum sem fóru fram dagana 30. ágúst 2019 og 14. ágúst 2020 

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni , Kjörbúðinni, Krambúðinni, 10-11 og Fjarðarkaupum. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga en ekki er um beinan verðsamanburð að ræða,  þ.e.a.s. hvar ódýrustu tíðavörurnar var að finna.  

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. 

 

 

rafidnadarsambandid rautt

Miðstjórn RSÍ sendir Alþýðusambandi Íslands barátturkveðjur vegna málshöfðunar á hendur Icelandair vegna alvarlegra brota á lögum um Stéttarfélög og vinnudeilur. Ljóst er að framkoma Icelandair og Samtaka atvinnulífsins er ekki boðleg á íslenskum vinnumarkaði og krefst afgerandi viðbragða enda verður það ekki liðið að fyrirtæki gangi fram með þessum hætti sem brýtur í bága við lög.

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?