Fréttir frá 2020

02 9. 2020

Vikulegur pistill formanns

bordar 1300x400 02Menntamálin eru ofarlega í starfinu hjá RSÍ. Um mjög langt skeið höfum við ítrekað unnið að því að auka veg iðnmenntunar á Íslandi og nýtum við hvert tækifæri til þess að stuðla að aukinni aðsókn í greinarnar okkar. Síðustu tvö ár hefur aðsókn jafnt og þétt verið að aukast í rafiðngreinar í skólunum sem er gríðarlega mikilvægt enda er skortur á starfsfólki í þeim greinum. Við höfum kallað eftir því að gerð verði mannafla- og færnispá fyrir íslenskt samfélag með reglubundnum hætti. Þannig megi stýra betur framboði náms í menntakerfinu með þarfir samfélagsins að leiðarljósi. Þegar fjölga þarf nemendum í ákveðinni grein verði horft til þess að auka fjármagn samhliða. Það er kostnaðarsamt fyrir samfélagið að mennta fólk til starfa sem ekki eru til eða þörf fyrir.

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík hefur á undanförnum áratug lagt baráttunni lið með ýmsum hætti. Í gær var árleg nýsveinahátíð haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem nýsveinum sem luku sveinsprófi með afburðaárangri veitt verðlaun. Ánægjulegt er að sjá nýsveina úr rafiðngreinum standa sig með jafngóðum árangri og raun ber vitni. 

Í líðandi viku voru haldnir fjölmargir fundir vegna kjarasamninga en hæst bar þó fundur með iðnaðarmönnum sem starfa hjá ISAL. Farið var yfir stöðu þeirra kjaraviðræðna sem standa yfir við fyrirtækið en samningurinn rann út í lok maí á síðasta ári og því augljóst að þolinmæði eftir endurnýjuðum kjarasamningi er löngu þrotin. Einhugur var í hópnum að staðan væri óásættanleg og að nauðsynlegt væri að ná fram kjarasamningi, með undirritun beggja samningsaðila, svo starfsmenn geti fengið sínar réttmætu launahækkanir sem byggja á þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á undanförnu ári. Staða fyrirtækisins getur verið snúin en það getur ekki verið hlutverk starfsfólks að sætta sig við að bera ábyrgð á slökum rekstri eigenda sem hafa tekið mjög afdrifaríkar ákvarðanir um reksturinn sem veldur þeirri stöðu sem uppi er. Starfsfólk hefur ekki notið góðs þegar vel gengur og hví ætti svo að vera þegar verr árar. Það var gríðarlega gott að finna fyrir þeirri gríðarlegu samstöðu sem var í hópi iðnaðarmanna. 

Fundað var með fulltrúum Norðuráls í vikunni þar sem áfram var unnið með mögulegar breytingar á vaktakerfi fyrirtækisins með þeim hætti að falla frá 12 tíma vöktum og færa yfir á 8 tíma vaktir enda hafa verið miklar umræður um það á meðal starfsfólks um slíkt. Það er mikið álag á starfsfólk að standa langar vaktir við krefjandi aðstæður. Sérstakur fundur í minni hópi þar sem eingöngu voru rædd málefni iðnaðarmanna hjá Norðuráli. Meðal málefna voru framhaldsnám stóriðjuskóla og hvernig hann nýtist iðnaðarmönnum og mögulegar breytingar á samspili við eftirmenntunarstofnanir iðnaðarmanna, RAFMENNT og Iðuna. Fyrirkomulag útkalla, skipulag starfseminnar og umræður voru um faglega stjórnun á svæðinu. Allt eru þetta atriði sem starfsfólk telur bráðnauðsynlegt að ræða og gera bætur á.

Niðurstöður liggja fyrir úr atkvæðagreiðslum um kjarasamninga RSÍ við Ríkið og Reykjavíkurborg. Samningarnir voru samþykktir í atkvæðagreiðslunum. 

Í vikunni var fundað vegna stefnumótunar RSÍ en sú vinna hefur verið í gangi innan RSÍ frá því undir lok síðasta árs en sú vinna byrjaði með svokallaðir SVÓT greiningu á vinnufundi miðstjórnar RSÍ og haldið var áfram með fræðslu fyrir þá aðila sem vinna að þessu og endar á því að stefna RSÍ til næstu 5 ára mun liggja fyrir á sambandsstjórnarfundi RSÍ í byrjun maí. Einn mikilvægasti þáttur í þessari stefnumótunarvinnu verður að hitta félaga RSÍ víðsvegar um landið en boðað verður til opinna funda með hagaðilum undir lok febrúar. Fundartímar og staðsetningar verða vel auglýstar þegar þar að kemur.

Miðstjórn ASÍ fundaði í vikunni en þar var farið yfir stöðu mála hjá Bjargi íbúðafélagi. Bjarg hefur nú þegar afhent 194 íbúðir til leigjenda, 269 íbúðir eru í byggingu og alls eru 440 íbúðir í hönnunarferli. Þetta gerir alls 903 íbúðir. Bjarg hefur undirritað viljayfirlýsingar við sveitarfélög um stofnframlög vegna 1.300 íbúða. Það er augljóst að áhrif innkomu Bjargs inn á leigumarkaðinn er mikil. Leiguverð hefur lækkað, aðbúnaður leigutaka hefur oft á tíðum batnað til muna. Áframhaldandi uppbygging getur því skilað samfélaginu margfalt betri stöðu í fasteignamálum. Samhliða þessu er forysta ASÍ að vinna að endurbótum á fasteignamálum þeirra sem eru að koma inn á fasteignamarkaðinn, auðvelda fólki að kaupa fyrstu fasteign, auðvelda fólki að fjármagna fasteignakaup heilt yfir og draga úr vaxtakostnaði. 

Miðstjórn RSÍ fundaði undir lok vikunnar þar sem staða kjarasamninga var rædd, yfirlýsing stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga og hvernig útlitið væri framundan. Miðstjórn sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu vegna verkfalla félaga Eflingar stéttarfélags. Farið var yfir afmælisár RSÍ og þá viðburði sem framundan eru á árinu. 28. nóvember fagnar RSÍ 50 ára afmæli. Fjölskylduhátíð RSÍ verður að vanda haldin á Skógarnesi og ekki er ólíklegt annað en að hún verði jafnvel veglegri en oft áður. Hátíðin verður helgina 19. - 21. júní. Fjölmargt fleira var rætt og gert á fundinum.

Það var mjög ánægjulegt að fá fréttir frá Seðlabanka Íslands þar sem stýrivextir voru lækkaðir enn meira eða um 0,25 prósentustig. Stýrivextir SÍ eru því komnir undir 3% eða nánar tiltekið í 2,75% sem eru sögulega lágir stýrivextir! Stýrivextir hafa því lækkað um 1,75 prósentustig frá undirritun kjarasamninga í maí 2019. 

Hvaða áhrif hefur það ef vextir fasteignalána lækka um 1,75%? Jú ef heimili er með 20 milljónir króna í fasteignalán og vextir lækka um 1,75% þá getur það þýtt vaxtalækkun upp á tæplega 30.000 kr. á mánuði. Það getur þó verið misjafnt eftir því hvaða lánaform er samið um og hvernig afborganir eru. En það er augljóst að sóknarfæri fyrir skuldsett heimili að endurfjármagna á mikið betri vaxtakjörum og oft á tíðum náð fram verulegum sparnaði. Rétt er geta þess einnig að ársverðbólga mældist 1,7% í janúar. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?