Fréttir frá 2020

09 16. 2020

Fréttatilkynning

ASI BSRB BHM

Sérfræðingahópur um mat á efnahagslegum áhrifum COVID-kreppunnar tekur til starfa 

Heildarsamtök launafólks, ASÍ, BSRB og BHM, hafa skipað starfshóp sem falið er að leggja mat á efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar með áherslu á áhrifin á vinnumarkaðinn. Hópurinn mun gera tillögur um aðgerðir til að fyrirbyggja langtímaskaða af efnahagskreppunni og tryggja öfluga viðspyrnu þegar heimsfaraldurinn líður undir lok. Hópnum er ætlað að horfa sérstaklega til viðkvæmra og jaðarsettra hópa og fjalla um að hvaða leyti aðgerðir geta haft áhrif á jöfnuð og félagslegt réttlæti. Hópurinn tekur þegar til starfa.  

Í sérfræðingahópnum eiga sæti: 

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, formaður  
Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í viðskiptafræði og fulltrúi í fjármálaráði 
Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR  
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB 
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði  
Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM  
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði  
Ásgeir Sverrisson, sérfræðingur ASÍ, mun starfa með hópnum 

Drífa Snædal, forseti ASÍ: 
„Á krepputímum eins og þessum eru teknar ákvarðanir í efnahagsmálum sem geta haft áhrif á samfélagið til langs tíma. Slíkar ákvarðanir verður að taka út frá almannahag, ekki sérhagsmunum. Hópurinn mun leggja mat á aðgerðir stjórnvalda og gera tillögur um leiðir til að tryggja að efnahagskreppan verði ekki dýpri og langvinnari en hún þarf að vera.“  

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB: 
„Covid-19 hefur sýnt svart á hvítu fram á mikilvægi traustra opinberra innviða. Við vinnum okkur ekki út úr kreppunni með því að veikja innviðina, heldur þvert á móti með því að styrkja þá. Með því að greina áhrif kreppunnar og aðgerða gegn henni á jöfnuð og félagslegt réttlæti má koma í veg fyrir að teknar séu stefnumótandi ákvarðanir sem ýta undir ójöfnuð og skara eld að köku hinna fáu.“  

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM:  
„Stefnumótun um leiðir út úr kreppunni verður að byggja á traustum grunni. Með því að leiða saman sérþekkingu fræðafólks og reynslu og þekkingu úr starfi verkalýðshreyfingarinnar er hægt að stuðla að upplýstri ákvarðanatöku og veita stjórnvöldum virkt aðhald.“

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?